spot_img

Heather Millard skipuð aðjúnkt í Kvikmyndalistadeild

Heather Millard framleiðandi hefur verið ráðin í stöðu aðjúnkts við Kvikmyndalistadeild Listaháskólans.

Heather er meðstofnandi Compass Films og Animation Studio Iceland og hefur framleitt úrval verðlaunamynda í flokkum leikinna mynda, heimildamynda, stuttmynda og teiknimynda á Íslandi og í Bretlandi.

Heather framleiddi meðal annars Ljósbrot eftir Rúnar Rúnarsson, sem var opnunarmynd Un Certain Regard í Cannes árið 2024, og stuttmynd hans O, sem verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum núna í september; Kulda eftir Erling Thoroddsen; Band eftir Álfrúnu Örnólfsdóttur (HotDocs 2022), Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Elfar Aðalsteins (Tallinn Black Nights 2022); Of Good Report eftir Jahmil X.T. Qubeka (TIFF 2013); og Yarn eftir Unu Lorenzen (SXSW 2016).

Sem stendur er Heather að klára MBA-gráðu í European Film Business and Law við Erich Pommer Institute and Film University Babelsburg, en hún hlaut nýverið réttindi sem ráðgjafi um sjálfbæra og umhverfisvæna kvikmyndaframleiðslu (e. Green Consultant) frá Hochschule der Medien Stuttgart.

Heather var fulltrúi Íslands á Producer on the Move í Cannes árið 2015 og hlaut Producers Network-viðurkenninguna á samframleiðslumarkaði evrópsku kvikmyndahátíðarinnar Les Arcs árið 2023. Hún er meðlimur í Evrópsku kvikmyndaakademíunni (EFA) og situr í stjórn Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar (ÍKSA), Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) og Nordic Animation Producers Board.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR