Kolbeinn segir:
Snerting er nýjasta kvikmynd Baltasars Kormáks og er byggð á samnefndri skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar sem kom út undir lok ársins 2020.
Árið 1969 ákveður ungur Kristófer Hannesson, leikinn af Pálma Kormáki Baltasarssyni, að hætta í náminu sem hann hefur lagt stund á í London School of Economics og sækja um starf á japanska veitingastaðnum Nippon. Þar kynnist hann eigandanum Takahashi, leikinn af Masahiro Motoki, og dóttur hans Miko, leikin af Kōki. Ekki líður á löngu þar til Kristófer og Miko fella hugi saman en að beiðni Miko fara þau leynt með samband sitt sökum föður hennar.
Árið 2020 ákveður sjötugur Kristófer, leikinn af Agli Ólafssyni, að loka veitingastað sínum á Íslandi og halda í ferðalag um heiminn þrátt fyrir yfirvofandi heimsfaraldur til þess að hafa upp á Miko, sem hann hefur ekki séð í 51 ár.
Sögunni vindur fram til skiptis á þessum tvennu tímum. Áhorfendur fylgjast með því hvernig ástin kviknar og blómstrar og hvernig örlögin verða til þess að ungu elskhugarnir eru ekki saman árið 2020. Hver sena er tiltölulega stutt en hlaðin merkingu um hvað átti sér stað og verður þannig til skilningur á aðstæðunum auk þess að nýjar spurningar vakna þegar skipt er um tímalínu. Framvindan er ákaflega vel strúktúruð og tekst Snertingu því algjörlega að halda athyglinni í allar 120 mínúturnar. Það er líka ákveðið afrek í ljósi þess hversu róleg myndin er. Það tók Kristófer 51 ár að hefja leitina að Miko og myndin tekur þetta sér til fyrirmyndar því hún er ekkert að flýta sér. Í staðinn leyfir hún persónunum að dúlla sér við hitt og þetta sem þó færir áhorfendur nær þeim. Þessi ró og fegurð sem býr í þessari sögu þarf pláss til þess að hafa áhrif. Það þýðir ekkert að sýna ástina á spretthlaupi. Það veltur þó auðvitað á persónusköpuninni og leiknum hvort þetta gangi upp en í tilfelli Snertingar stendur hún svo sannarlega fyrir sínu. Pálmi, Kōki og sérstaklega Egill Ólafsson eiga algjöran leiksigur í hlutverkum sem krefjast mikillar næmni til þess að ganga upp.
Fyrstu kynni Kristófers og Miko eru í dyragátt Nippon. Hann stendur óvart í vegi fyrir henni og hún leggur hönd sína á öxl hans til þess að komast fram hjá honum. Augu þeirra mætast þegar hann snýr sér við og áhorfendur finna strax ástina sem felst í þessum einföldu samskiptum. Þögnin á meðan þau horfa hvort á annað og vandræðaleg brosin segja svo miklu meira en nokkur orð og þar með heilla þau ekki bara hvort annað heldur einnig áhorfendur upp úr skónum.
Þótt persóna Miko sé heillandi hefði mátt gera henni aðeins betri skil þar sem hún kemst stundum hættulega nálægt því að vera bara ástarviðfang. Hún hefði getað skinið enn skærar ef persónuleiki hennar hefði fengið að njóta sín aðeins meira. Á meðan við kynnumst pólitískum skoðunum, vinum og áhugamálum Kristófers virðist Miko aðallega hafa áhuga á því að vera í sambandi. Sjónarhorn fortíðarinnar er yfirleitt Kristófers svo áhorfendur kynnast honum náttúrulega betur.
Það eru þó ekki einungis aðalpersónur myndarinnar sem skína. Nær allar aukapersónur eru á sinn hátt sniðugar eða skemmtilegar og það gefur myndinni svo mikið líf. Sem dæmi má nefna taugaveiklaða en drepfyndna hótelstarfsmanninn í London þar sem Kristófer leigir herbergi. Í stað þess að heimurinn snúist um ástfangna parið eru þau bara lítill hluti af heiminum, heimi þar sem allir eiga sína sögu.
Snerting leggur einnig upp úr því að sýna fegurð lífsins í því smáa. Það eru hlutar sem eru sorglegir og ákveðið atriði fjallar um hræðilegan atburð en á sama tíma eru nær allir sem koma við sögu lausir við alla meinsemd. Myndin sér allt það fallega við fólk og samskipti þess. Snertingu svipar að því leyti til myndarinnar Perfect Days í leikstjórn Wim Wenders sem er einnig í sýningu núna. Þar fylgjumst við með daglegu lífi ræstitæknis í Tokyo og sambandi hans við litla frænku sína. Í þessu samhengi er einnig hægt að minnast á verk leikstjórans Aki Kaurismäki. Líkt og Snerting eru þetta allt verk sem virðast hafa óbilandi trú á því hvað fólk getur verið gott og fallegt. Þrátt fyrir erfiðleika brýst hið góða fram.
Innan myndarinnar er sífellt samspil á milli tveggja heima. Í fyrsta lagi er það covid og hinn nýi heimur veirunnar sem er við það að skella á. Kristófer hinn eldri lendir á milli hins nýja og gamla heims, t.d. þegar hann er á hótelinu í London. Þar er ítrekað fyrir honum að hann þurfi nú að fara að tygja sig því þau þurfi að loka sökum faraldursins. Á ferðalagi hans breytast reglurnar um hvernig á að haga sér og með Kristófer sem miðpunkt sjáum við heimana mætast.
Í öðru lagi er það heimalandið og útlönd. Í London er japanski veitingastaðurinn Nippon táknræn eyja fyrir bæði starfsfólkið og gesti staðarins þar sem hægt er að finna menningu og mat heimalandsins í útlandinu. Kristófer hinn ungi lendir að sama skapi á milli heima sem Íslendingur í útlöndum. Íslensku vinir hans halda áfram í náminu en hann fjarlægist þá á sama tíma og hann tengist Miko, japanskri menningu og tungumáli. Kristófer hinn eldri á dóttur á Íslandi sem hringir af og til í hann á ferðalagi hans og reynir að sannfæra hann um að snúa aftur til Íslands áður en landinu er lokað. Samhliða því að hringingunum fækkar fjarlægist hann Ísland bókstaflega á ferðalagi sínu sem leiðir hann fyrst til London og svo til Japans.
Í þriðja lagi er það hvernig fortíð og nútíð blandast saman. Sagan flakkar á milli og form myndarinnar blandar þannig tímanum saman. Oft er klippt á milli atriða í fortíð og nútíð eins og þau séu í beinu framhaldi hvort af öðru. Persóna Kristófers er þó einnig samblanda af þessum tveimur tímum og í upphafi myndar komumst við að því að heilsu hans og minni fer hrakandi. Fortíð og nútíð blandast því ekki einungis saman í forminu heldur einnig persónunni. Í nokkrum skotum myndarinnar leggst glampi af linsu kvikmyndatökuvélarinnar yfir Kristófer og Miko. Virðist ramminn þannig vera að leysast upp og hlýir tónar sem einkenna lýsingu fortíðarinnar blandast saman við kaldari tóna lýsingar nútímans. Mörkin milli fortíðar og nútíðar verða þar með óljósari og þessir tveir heimar renna saman í persónu Kristófers og Miko.
Þetta samspil heima dregur áhorfendur inn í framvinduna og gerir það að verkum að áhorfendur tengjast þessum persónum sögunnar og örlögum þeirra. Við vonum að Kristófer hinn eldri finni týndu ástina sína þar sem Kristófer hinn ungi er búinn að sannfæra okkur um kraftinn sem bjó í þessari ást. Hvorki covid, landamæri né tímans rás virðast geta komið í veg fyrir endurfundi elskhuganna.
Á meðan tilfinningarnar krauma gerir tónlistin sitt besta til að toga í hjartastrengi í gegnum myndina. Ef til vill væri hægt að færa rök fyrir því að þar með sé myndin á einhvern hátt að leiða áhorfendur að þeim tilfinningalegu viðbrögðum sem hún vill að þau finni. Samt sem áður er að sama skapi hægt að spyrja sig af hverju í ósköpunum við förum í bíó ef ekki til þess að finna til með persónum hvíta tjaldsins. Markmið kvikmynda er að vekja tilfinningar og Snertingu tekst svo listilega að vera innilega falleg og hugljúf að það er nær ómögulegt að gráta eða samgleðjast ekki með persónum myndarinnar.