Segir um þetta á vef Stjórnarráðsins:
Menningar- og viðskiptaráðherra hefur birt drög að frumvarpi til laga um menningarframlag streymisveitna í samráðsgátt. Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný skylda innlendra og erlendra streymisveitna til að greiða svokallað „menningarframlag“ til íslensks samfélags. Frumvarpið er á meðal þess sem lagt er til í nýrri skýrslu starfshóps um gjaldtöku á streymisveitur og tæknifyrirtæki.
Streymisveitur eru fjölmiðlaveitur sem miðla efni eftir pöntun (e. VOD), sumar eingöngu innanlands en aðrar yfir landamæri til fleiri ríkja. Stærstu einkareknu streymisveiturnar hér á landi eru Stöð 2+ í eigu Sýnar og Sjónvarp Símans Premium, í eigu Símans. Erlendar streymisveitur með starfsemi hér á landi eru Netflix, Disney+, Viaplay og Amazon Prime Video. Á síðustu árum hefur samkeppni við alþjóðlegar streymisveitur og samfélagsmiðla haft neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi og samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla, sem kemur niður á framleiðslu innlends efnis og veikir þar með stöðu íslenskrar tungu.
Markmið frumvarpsins er að efla íslenska menningu og tungu með því að hvetja til fjárfestingar í framleiðslu á innlendu efni sem er að meginhluta á íslensku eða með aðra íslenska skírskotun. Frumvarpið er því liður í að jafna samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla gagnvart erlendum streymisveitum. Þá kann aukin fjárfesting í framleiðslu á innlendu efni að leiða til fleiri atvinnutækifæra fagfólks sem starfar við sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu hér á landi.
Lagt er til að innheimta geti verið í formi fjárframlags og/eða beinnar fjárfestingar:
1) skyldu til að greiða fjárframlag til Kvikmyndasjóðs, sem nemi að hámarki 5%* af áskriftartekjum af starfsemi streymisveitunnar á Íslandi á ársgrundvelli.
2) skyldu til að fjárfesta með beinum hætti í framleiðslu í innlendu hljóð- og myndefni, í skilningi laganna, fyrir 5% af áskriftartekjum af starfsemi streymisveitunnar á Íslandi á ársgrundvelli.
Áætlað er að frumvarp um menningarframlag streymisveitna muni afla tekna sem renna til Kvikmyndasjóðs. Gert er ráð fyrir að áhrif frumvarpsins verði mest á streymisveitur sem fjárfesta lítið eða takmarkað í nýju, íslensku efni. Til glöggvunar má nefna að innlendar streymisveitur eru nú þegar að fjárfesta í innlendu efni og því yrði kallað eftir upplýsingum um umfang þeirrar framleiðslu. Ef fjárfesting er 5% eða hærra hlutfall af áskriftartekjum á ársgrundvelli félli gjaldtakan niður.
Málið er í samráðsgátt til 9. júní nk. Að lokinni birtingu í samráðsgátt verður farið yfir umsagnir og ábendingar sem þar berast. Að því loknu, og með fyrirvara um samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA, verður frumvarpið fullunnið og lagt fram á Alþingi haustið 2024.
*Að hámarki 5% vísar í að hægt sé að notast við bæði leið 1 og 2. Td ef fjárfesting nær ekki 5% væri hægt að greiða það sem útaf stendur til Kvikmyndasjóðs.
Skýrsla um gjaldtöku á streymisveitur og tæknifyrirtæki
Frumvarpið byggir meðal annars á tillögum í skýrslu starfshóps um gjaldtöku á streymisveitur og tæknifyrirtæki sem skipaður var af menningar- og viðskiptaráðherra 23. júní 2023 og skilaði skýrslu sinni til ráðherra 27. febrúar 2024. Starfshópinn skipuðu dr. María Rún Bjarnadóttir (formaður), Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, fulltrúi menningar- og viðskiptaráðuneytisins, og Vilmar Freyr Sævarsson, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Við undirbúning skýrslunnar fundaði hópurinn með fulltrúum nokkurra hagsmunaaðila á vettvangi sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu og fjölmiðlunar.
Starfshópurinn lagði fram tvær tillögur auk tillögu um menningarframlag:
Ákvæði um höfundarrétt sem veitir útgefendum fréttaefnis einkarétt til eintakagerðar og stafrænnar miðlunar útgáfu sinnar á netinu.
– að lögfest verði ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2019/790 um höfundarrétt og skyld réttindi á stafræna innri markaðinum, sem kveður á um skyldu aðildarríkja til að veita útgefendum fréttaefnis einkarétt til eintakagerðar og stafrænnar miðlunar útgáfu sinnar á netinu, sem vara skal í tvö ár. Leggur hópurinn til að fordæmi annarra þjóða verði fylgt og lögfest samningskvaðaheimild til að tryggja samninga vegna þessa nýja réttar. Samningar miði að því að fjölmiðlar fái aukinn hlut í þeim fjárhagslegu verðmætum sem skapast við stafræna dreifingu fréttaefnis á erlendum samfélagsmiðlum og leitarvélum.
Stafrænn þjónustuskattur
– að fylgst verði náið með framgangi vinnu á vettvangi OECD um skattlagningu stafræna hagkerfisins og að stjórnvöld verði undirbúin fyrir mögulegar einhliða aðgerðir til að skattleggja alþjóðlega tæknirisa ef sameiginleg niðurstaða fæst ekki á vettvangi OECD.