Stuttmynd: Þið kannist við… (frumsýning)
Leikin íslensk fjölskyldumynd frá 2023. Fjölskylda kemst í hann krappann á aðfangadagskvöld þegar jólaköttinn ber að garði, í leit að þeim sem fengu enga mjúka pakka. Aðalhlutverk: Ævar Þór Benediktsson, Anja Sæberg, Árni Pétur Guðjónsson, Aðalheiður Árnadóttir og Katla María Ómarsdóttir. Handrit: Guðni Líndal Benediktsson og Ævar Þór Benediktsson. Leikstjóri: Guðni Líndal Benediktsson. Sýnd á jóladag á RÚV.
Bíómynd: Svar við bréfi Helgu
Íslensk kvikmynd frá 2022 í leikstjórn Ásu Helgu Hjörleifsdóttur. Aldraður bóndi skrifar bréf til ástkonunnar sem honum bauðst að fylgja forðum tíð. Gerði hann rétt að taka skyldur sínar við sveit og eiginkonu fram yfir ástina, eða sveik hann þannig sitt eigið hjarta? Aðalhlutverk: Hera Hilmarsdóttir, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Aníta Briem og Björn Thors. Myndin er sýnd á sama tíma á RÚV 2 með enskum texta. Sýnd á jóladag á RÚV.
Bíómynd: Abbababb!
Dans- og söngvamynd frá 2022 eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttur. Hanna og vinir hennar í hljómsveitinni Rauðu hauskúpunni uppgötva að óprúttnir aðilar ætla að sprengja skólann á lokaballinu og beita öllum sínum ráðum til að ná sökudólgunum. Meðal leikenda eru Ísabella Jónatansdóttir, Óttar Kjerulf Þorvarðarson, Vilhjálmur Árni Sigurðsson, Eyþór Ingi Gunnlaugsson og Vala Sigurðardóttir Snædal. Myndin er sýnd á sama tíma á RÚV 2 með enskum texta. Sýnd á annan í jólum á RÚV.
Heimildamynd: Soviet Barbara
Íslensk heimildamynd frá 2023. Myndlistarmaðurinn Ragnar Kjartansson framdi óvenjulegan gjörning í Moskvu árið 2022 þar sem hann endurskapaði bandarísku sápuóperuna Santa Barbara. Þættirnir nutu gífurlegra vinsælda í Rússlandi árið 1992, eftir fall Sovétríkjanna, og voru eins konar gluggi rússneskra sjónvarpsáhorfenda inn í vestræna lifnaðarhætti. Leikstjóri: Gaukur Úlfarsson. Sýnd á annan í jólum á RÚV.
Hér má sjá klippu frá Skjaldborgarhátíðinni 2023 þar sem meðal annars er fjallað um myndina:
Þáttaröð: Húsó (frumsýning, 1. þáttur af 6)
Íslensk þáttaröð í leikstjórn Arnórs Pálma Arnarsonar. Hekla hefur verið inn og út af meðferðarstofnunum frá unglingsaldri. Þegar hún missir forræði yfir dóttur sinni gerir hún tilraun til að halda sig á beinu brautinni með því að skrá sig í Hússtjórnarskólann í Reykjavík. Meðal leikenda eru Ebba Katrín Finnsdóttir, Edda Björgvinsdóttir og Katla Þórudóttir Njálsdóttir. 1. janúar 2024 á RÚV.
Bíómynd: Villibráð
Íslensk kvikmynd frá 2023 í leikstjórn Elsu Maríu Jakobsdóttur. Í matarboði í Vesturbænum ákveða sjö vinir að fara í stórhættulegan samkvæmisleik. Viðstaddir leggja símana á borðið og fallast á að öll símtöl og skilaboð sem berast verði deilt með samkomunni til að sanna að ekkert þeirra hafi nokkuð að fela. Aðalhlutverk: Hilmir Snær Guðnason, Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn Garðarsson, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Björn Hlynur Haraldsson, Aníta Briem og Hilmar Guðjónsson. Myndin er sýnd á sama tíma á RÚV 2 með enskum texta. 1. janúar 2024 á RÚV.
Heimildamynd: Tógólísa
Íslensk heimildarmynd um þrjár kynslóðir kvenna í Stelpur rokka-búðunum í Tógó. Hver kynslóð hefur sinn skilning á lífinu og tónlistinni. Leikstjóri: Alda Lóa Leifsdóttir. Framleiðsla: Nýr kafli. 2. janúar 2024 á RÚV.
Þáttaröð: Venjulegt fólk (sjötta syrpa, sex þættir)
Sjötta syrpa þessarar langlífu gamanþáttaraðar um dramað sem fylgir lífsgæðakapphlaupi tveggja vinkvenna. Að upplifa frægð og frama er ekki bara dans á rósum heldur hefur það ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir þær, fjölskyldu og vini. Aðalhlutverk: Vala Kristín Eiríksdóttir, Júlíana Sara Gunnarsdóttir. Leikstjóri: Fannar Sveinsson. Í sýningum í Sjónvarpi Símans Premium.