Tíu spennandi kvikmyndir og viðburðir á RIFF

RIFF hefst í dag 28. september og mun standa til 8. október. Hér eru tíu áhugaverðar kvikmyndir og viðburðir á dagskránni að mati ritstjóra Klapptrés.

Dagskrá RIFF er hér.

Bæklingur Bransadaga er hér.

Opnunarmyndin er Tilverur, frumraun Ninnu Pálmadóttur, sem heimsfrumsýnd var í Toronto fyrr í mánuðinum. Sýningar hefjast á myndinni í kvikmyndahúsum í kjölfarið.

Lokamyndin er Poor Things eftir Yorgos Lanthimos sem hlaut Gullna ljónið í Feneyjum fyrr í mánuðinum, en Lanthimos er einhver athyglisverðasti leikstjórinn í Evrópu um þessar mundir.

Heiðursgestir hátíðarinnar eru Nicolas Philibert, Isabelle Huppert, Luca Guadagnino, Vicky Krieps, Catherine Breillat og Luc Jacquet. Hér má sjá tímasetningar á meistaraspjalli þeirra. Huppert er ein allra athyglisverðasta leikkona Frakka um áratugaskeið. Mæli sérstaklega með Things to Come (2016) og Elle (2016), sú síðarnefnda er sýnd á hátíðinni. Guadagnino og Breillat eru bæði merkis listamenn sem eiga að baki mörg sterk verk.

May December eftir Todd Haynes, með Natalie Portman og Julianne Moore. Haynes er einn af meisturum bandarískra kvikmynda og alltaf spennandi að sjá nýja mynd frá honum. Tuttugu árum eftir að slúðurblöðin gerðu ástarsamband þeirra þjóðþekkt, koma brestir í hjónaband Gracie og Joe þegar leikkona birtist á dyraþrepinu hjá þeim í því skyni að afla heimilda fyrir kvikmynd um fortíð þeirra.

The Taste of Things eftir Anh Hung Tran, einn athyglisverðasta leikstjóra Asíu, með Juliette Binoche í aðalhlutverki.

On the Adamant eftir Nicolas Philibert sem hlaut Gullbjörninn í Berlín. Philibert er einn af heiðursgestum hátíðarinnar og verður með meistaraspjall í Slippbíó, 29. september kl. 10:30.

Íslenskar stuttmyndir I og II

Alltaf spennandi að kíkja á grasrótina í íslenskri kvikmyndalist. Dagskránni er skipt í tvo hluta og verða fimm myndir sýndar í hvort sinn. Tímasetningin er dálítið einkennileg, kl. 11 á laugardags- og sunnudagsmorgunn 30. sept. og 1. okt.

Þessi 10 verk keppa um bestu stuttmyndina á RIFF

Dagurinn þegar Ísland stöðvaðist / The Day Iceland Stood Still

Sýnd 1. október kl. 19:15. Þegar 90% íslenskra kvenna lögðu niður störf á Kvennafrídeginum 1975 lömuðu þær tímabundið íslenskt atvinnulíf og komu Íslandi í fremstu röð í alþjóðlegri jafnréttisbaráttu. Þetta er sönn saga af 12 klukkustundum sem hrundu af stað byltingu. Leikstjóri: Pamela Hogan. Framleiðandi: Hrafnhildur Gunnarsdóttir. Smellið hér til að sjá stiklu.

Opið samtal með Gísla Snæ Erlingssyni

Nýr forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Gísli Snær Erlingsson, mun sitja fyrir svörum á RIFF þann 2. októberkl. 16 í Norræna húsinu og meðal annars ræða framtíðarsýn. Spjallið verður leitt af fulltrúum fjögurra aðildarfélaga innan kvikmyndagerðar, þeim Antoni Mána Svanssyni, formanni SÍK, Ragnari Bragasyni formanni SKL, Steingrími Dúa Mássyni, formanni FK og Maríu Reyndal frá FLH. Spjallið er opið öllu fagfólki og nemendum í kvikmyndafræði og kvikmyndagerð. Opnað verður fyrir spurningar í lok spjalls.

Animating the Future: Exploring the Convergence of Technology in Animation

Miðvikudag 4. október kl. 09:30 í Ráðhúsinu. Pallborðsumræður um þær sviptingar sem eru að eiga sér stað í teiknimyndagerð með tilkomu gervigreindar og hvernig teiknimyndagerð fyrir fullorðna er að aukast. Þátttakendur eru Gísli Darri Halldórsson (Óskarsverðlaunatilnefnd mynd hans Já-fólkið er sýnd hér ásamt mörgum öðrum verðlaunamyndum á RIFF gegnum tíðina), Sara Gunnarsdóttir (mynd hennar My Year of Dicks var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrr á árinu), Vladimir Leschiov & Sigvaldi J. Kárason

Einn tveir og dreifing!  –  Spjall um kvikmyndahátíðir og dreifingu á alþjóðavísu

Ráðhús Reykjavíkur 5. október kl. 9:30. Umræður sérstaklega miðaðar að ungu og upprennandi kvikmyndagerðarfólki um ferlið sem tekur við eftir að kvikmynd er fullkláruð og fer í sölu og dreifingu á kvikmyndahátíðir. Fram koma Christian Jeune, yfirmaður kvikmyndadeildar Cannes kvikmyndahátíðarinnar, Maud Amson, stjórnandi frá Marche du Film, stærsta kvikmyndamarkaði í heimi, Alessandro Raja, forstjóri og meðstofnandi FestivalScope, Bruno Muñoz, yfirmaður stuttmyndadagskrár Cannes, og Fredéric Boyer, dagskrárstjóri hjá RIFF.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR