Heimaleikurinn, gamansöm heimildamynd í leikstjórn Smára Gunnarssonar og Loga Sigursveinssonar, hlaut sérstök áhorfendaverðlaun á Nordisk Panorama, stærstu heimilda- og stuttmyndahátíð á Norðurlöndum.
Myndin segir frá tilraun manns til að uppfylla draum föður síns; að safna í lið heimamanna til að spila langþráðan vígsluleik á fótboltavelli sem faðirinn lét byggja á Hellissandi 25 árum áður.
Heimaleikurinn fellur víða í kramið hjá áhorfendum, en hún hlaut fyrir skemmstu einnig áhorfendaverðlaun á heimildamyndahátíðinni Skjaldborg. Almennar sýningar hefjast á myndinni þann 13. október í Bíó Paradís.
Fimm íslenskar myndir kepptu um verðlaun á Nordisk Panorama í ár. Opnunarmynd hátíðarinnar var stuttmynd Gunnar Martinsdóttur Schlüter, Fár.