spot_img

The Guardian um HEIMALEIKINN: Þú munt annaðhvort heillast eða yppta öxlum

Heimildamyndin Heimaleikurinn fær umsögn í The Guardian vegna sýninga á myndinni í Bertha Dochouse í London.

Gagnrýnandinn Catherine Bray segir myndina fylgja kraftmiklum hóp heimamanna setja saman skrautlegt lið leikmanna til að uppfylla gamlan draum.

Minna gæti varla verið í húfi og myndin veit það; þú munt annaðhvort heillast eða yppta öxlum. Áhorfendur nokkurra kvikmyndahátíða, þar á meðal í Glasgow, hafa heillast og veitt myndinni ýmis áhorfendaverðlaun. Slík verðlaun fara oftast til kvikmynda sem eru ýmist um hörmungar, eru ágengar pólitískt eða hugljúfar – Heimaleikurinn passar mjög vel í síðastnefnda flokkinn með smábæjarpersónum sínum, skondnum metnaði til að láta áratuga gamlan draum rætast og dugmiklum hópi lítilmagna sem vinna saman gegn ofurefli aðstæðna. Þessi mynd ætlar sér ekki að víkka heimildamyndaformið heldur aðeins segja litla sögu á beinskeyttan hátt; þetta er svona mynd sem hægt er að ímynda sér að sé spiluð aftur og aftur fyrir ferðamenn í gestamiðstöð á Hellissandi. Ætti myndin að stefna aðeins hærra? Óneitanlega, en það væri smámunasemi að kvarta yfir því að þessi litla og sæta mynd ætti að stefna hærra, eins og að refsa Leyton Orient fyrir að komast ekki inn á Evrópumót; þeir eru einfaldlega ekki að spila í þeirri deild og það er allt í lagi, það er líka pláss í leiknum fyrir litla strákinn.
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR