[Stikla] TILVERUR opnunarmynd RIFF

Tilverur eftir Ninnu Pálmadóttur verður opnunarmynd RIFF (Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík) 2023, sem hefst 28. september. Stikluna má skoða hér.

Myndin var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto þann 8. september síðastliðinn. Þetta er fyrsta bíómynd leikstjórans, Ninnu Pálmadóttur en handrit myndarinnar skrifaði Rúnar Rúnarsson sem áður hefur gert myndirnar Bergmál (2019), Þrestir (2015) og Eldfjall (2011).

Með aðalhlutverk fara Þröstur Leó Gunnarsson, Hermann Samúelsson, Anna Gunndís Guðmundsdóttir og Hjörtur Jóhann Jónsson.

RIFF hefur áður frumsýnt stuttmynd Ninnu, Allir hundar deyja, árið 2020. Ninna fékk Edduverðlaunin fyrir fyrstu stuttmynd sína Blaðberinn (2019) sem var útskriftarverkefni hennar úr kvikmyndaskóla.

Tilverur verður tekin til almennra sýninga í Sambíóunum 29. september.

Ninna Pálmadóttir.

Ninna Pálmadóttir er fædd árið 1991 og fékk að eigin sögn ólæknandi kvikmyndadellu þegar hún var sautján ára gömul og tók þá ákvörðun um að verða leikstjóri. Hún útskrifaðist úr Tisch School of the Arts í New York árið 2019 í leikstjórn og handritagerð en hún lauk áður BA námi í kvikmyndafræði og bókmenntum við Háskóla Íslands.

Afdrifarík vinátta

Myndin fjallar um hinn sextuga Gunnar sem lifir einmanalegu lífi í sveitinni. Einn dag ákveður ríkið að kaupa landið hans undir virkjunarframkvæmdir og Gunnar á engra annarra kosta völ en að selja nágrannanum hestana sína og keyra til borgarinnar án þess að líta um öxl. Hann flytur í rólegt úthverfi og lifir tilbreytingarlausu lífi þar til blaðburðardrengurinn Ari ákveður að vingast við hann. Vinátta þeirra reynist afdrifarík fyrir þá báða.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR