Þórir Snær Sigurjónsson, framleiðandi kvikmyndarinnar Villibráð, ræðir við Fréttablaðið um verkið og hvernig það kom til.
Á vef Fréttablaðsins segir:
Elsa María Jakobsdóttir leikstýrir kvikmyndinni Villibráð en sambýlismaður hennar, Þórir Snær Sigurjónsson, framleiðir myndina sem byggir á hinni ítölsku Perfetti sconosciuti sem á heimsmet í endurgerðum. Eitthvað sem Þórir Snær telur að megi þakka fangelsisdómi yfir fallna mógúlnum Harvey Weinstein.
Íslenska kvikmyndin Villibráð í leikstjórn Elsu Maríu Jakobsdóttur, verður frumsýnd á föstudaginn. Villibráð byggir á mest endurgerðu mynd allra tíma, hinni ítölsku Perfetti sconosciuti frá 2016.
Þórir Snær Sigurjónsson, sambýlismaður Elsu Maríu, framleiðir Villibráð en segja má að faðir hans, Sigurjón Sighvatsson, hafði þefað Villibráðina uppi og hann í kjölfarið tryggt sér réttinn til endurgerðar á Norðurlöndunum.
„Ég var með pabba í Scanbox, félaginu sem ég rek úti, en er reyndar búinn að kaupa hann út. Við sáum þessa ítölsku mynd þegar hún kom út og við vorum að spá í að kaupa sýningarréttinn. Þá segir sá gamli, sem er nú með gott nef, að þetta sé rakið dæmi til endurgerðar,“ segir Þórir Snær.
Weinstein missir boltann
Þórir Snær segir þá feðga í fyrstu hafa fengið heldur neikvæð viðbrögð þegar þeir fóru að kanna möguleikann á endurgerð enda hafi sá réttur fljótlega endað hjá bandaríska framleiðandanum Harvey Weinstein.
„Þá leit út fyrir að þetta yrði bara þannig. Harvey Weinstein gerir einhverja ameríska útgáfu sem fer út um allan heim og málið er dautt,“ segir Þórir Snær um stöðuna sem aldrei kom því Weinstein endaði í fangelsi fyrir fjölda kynferðisbrota.
„Og þá náðum við norræna réttinum þannig að það má í rauninni þakka fangelsisdómi Harvey Weinstein að allar þessar myndir voru gerðar,“ segir Þórir Snær og hlær. „Vegna þess að amerísk stórmynd hefði auðvitað kaffært allt annað.“
Ítölsk lumma og íslensk villibráð
Þórir Snær segir grunnsöguna í ítölsku myndinni henta vel til endurgerða sem megi laga að hverju samfélagi fyrir sig og svigrúmið slíkt að í raun sé Villibráð annað og meira en eiginleg endurgerð.
„Ramminn er bara svo skýr og góður og þessi símaleikur er svolítið bara frásagnartækið sem keyrir þetta í gegn og svo geturðu bara gert það sem þú vilt.“ Hann lýsir frummyndinni sem svolítilli lummu með sterkum kaþólskum undirtónum þannig að Villibráð sé í raun allt öðruvísi mynd þótt þær eigi matarboðið og símaleikinn sameiginleg.
Erfiðara að gera upp íbúð
Þegar kvikmyndagerð er annars vegar má segja að það sé regla frekar en undantekning að ekki skerist í odda milli leikstjóra og framleiðanda en Þórir Snær segir aðspurður að Villibráðin hafi aldrei truflað samband þeirra Elsu Maríu.
„Ég myndi segja að það hafi verið miklum mun erfiðara fyrir okkur að gera upp íbúðina okkar fyrir fjórum árum. Ef maður kemst í gegnum eitt svoleiðis þá er þetta ekkert mál. Þetta var bara mjög skemmtilegt og í alvörunni ekkert mál enda vorum við á svipaðri blaðsíðu með þetta allt.“
Villibráð
Villibráð gerist í matarboði í Vesturbænum þar sem sjö vinir fara í háskalegan samkvæmisleik sem gengur út á að allir leggja síma sína á borðið og samþykkja að öll skilaboð og símtöl sem þeim berast verði afgreidd upphátt og fyrir opnum tjöldum. Þannig geti þau öll sannað að þau hafi ekkert að fela.
Villibráð er byggð á dökkri ítalskri kómedíu, Perfetti sconosciuti, eða Fullkomlega ókunnugir, frá 2016. Þetta er fyrsta kvikmynd leikstjórans Elsu Maríu Jakobsdóttur í fullri lengd en hún skrifaði einnig handritið ásamt leikskáldinu Tyrfingi Tyrfingssyni.
Leikhópurinn er þéttskipaður þekktu hæfileikafólki en í boðið örlagaríka eru þau mætt Björn Hlynur Haraldsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn Garðarsson, Hilmir Snær Guðnason, Hilmar Guðjónsson, Anita Briem, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Snædís Petra Sölvadóttir og Jónmundur Grétarsson.
Samkvæmt Heimsmetabók Guinness var Perfetti sconosciuti árið 2018 orðin sú kvikmynd sem oftast hefur verið endurgerð. Japanskar, þýskar, pólskar, ísraelskar, tékkneskar og arabískar útgáfur hafa til dæmis nú þegar litið dagsins ljós og þeim heldur áfram að fjölga og þannig mun allavegana dönsk útgáfa fylgja í kjölfar þeirrar íslensku.