Berdreymi Guðmundar Arnars Guðmundssonar og Volaða land Hlyns Pálmasonar eru báðar í forvali til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2022. Verðlaunahátíðin fer fram í Reykjavík 10. desember.
Meðal annarra mynda í forvalinu eru Parallel Mothers eftir Pedro Almodovar, The Triangle of Sadness eftir Ruben Östlund og Belfast eftir Kenneth Branagh.
Berdreymi var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín í febrúar og hlaut þar Europa Cinemas Label verðlaunin sem besta evrópska myndin í Panorama flokki. Síðan hefur myndin ferðast á milli hátíða víða um heim og unnið til fjölda verðlauna.
Framleiðandi myndarinnar er Anton Máni Svansson fyrir hönd Join Motion Pictures, en myndin er samstarfsverkefni fimm landa með meðframleiðendur frá Danmörku, Svíþjóð, Hollandi og Tékklandi.
Volaða land var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí og hlaut þar mikið lof áhorfenda og gagnrýnenda. Nýlega var tilkynnt að myndin yrði sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto, einni stærstu og virtustu kvikmyndahátíð Norður Ameríku. Volaða land verður frumsýnd á Íslandi í vetur.
Volaða Land er framleidd af íslenska framleiðslufyrirtækinu Join Motion Pictures og hinu danska Snowglobe. Framleiðendur eru Anton Máni Svansson, Katrin Pors, Eva Jakobsen, og Mikkel Jersin. Meðframleiðendur eru Didar Domehri frá Maneki Films í Frakklandi, Anthony Muir og Peter Possne frá Film I Väst í Svíþjóð, Mimmi Spång frá Garagefilm í Svíþjóð, og Guðmundur Arnar Guðmundsson frá Join Motion Pictures, Íslandi.
Evrópsku kvikmyndaverðlaunin eru afhent annað hvert ár við hátíðlega athöfn í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum Evrópu. Í þetta sinn fer hátíðin fram í Reykjavík, 10. desember. Upphaflega stóð til að hún færi fram hér á landi árið 2020 en var frestað vegna heimsfaraldursins.