Líklegt verður að teljast að Dýrið verði meðal mest sóttu myndanna þegar yfirstandandi ár verður gert upp. Myndin hefur verið seld til fjölda landa en hefur enn ekki verið sýnd í flestum þeirra. Miðað við tekjur má áætla að aðsókn á Dýrið vestanhafs nemi í kringum hundrað þúsund gestum eftir fyrstu helgina, en það skýrist betur síðar.
15 aðsóknarhæstu íslensku kvikmyndirnar á heimsvísu
1 | Lói - þú flýgur aldrei einn | 1.719.360 |
2 | Hetjur Valhallar: Þór | 1.120.907 |
3 | Kona fer í stríð | 803.592 |
4 | Hrútar | 543.014 |
5 | 101 Reykjavík | 417.342 |
6 | Nói albínói | 352.512 |
7 | Fúsi | 267.244 |
8 | Undir trénu | 179.176 |
9 | Mýrin | 172.874 |
10 | Englar alheimsins | 139.633 |
11 | Djöflaeyjan | 126.848 |
12 | Hafið | 126.684 |
13 | Hross í oss | 125.431 |
14 | Cold Fever | 97.489 |
15 | The Good Heart | 81.229 |
Listinn er (að mestu) byggður á gögnum Lumiere gagnabankans sem European Audiovisual Observatory heldur utan um, en það apparat er á vegum Evrópuráðsins (Council of Europe). Þar er að finna gögn um aðsókn allra evrópskra mynda frá 1996.
Hafa þarf í huga að þessar tölur sýna aðeins brot af þeim hópi sem horfir á íslenskar myndir víða um heim, en gefur fyrst og fremst vísbendingu um áhuga og velheppnaða markaðssetningu í einstökum löndum.
Einnig þarf að hafa í huga að flestar þessara mynda eru einnig sýndar í sjónvarpi og hin síðari ár birtast sumar þeirra á efnisveitum sem í sumum tilfellum ná til yfir hundrað milljón áskrifenda um allan heim. Tölur um áhorf á íslenskar myndir í þessum miðlum liggja ekki fyrir, en óhætt er þó að fullyrða að þar sé um miklu hærri tölur að ræða.
Með því að smella á heiti myndanna í gagnagrunninum kemur upp ítarlegur sundurliðaður listi eftir löndum. Neðst á síðu viðkomandi myndar er jafnframt sundurliðun á heildaraðsókn innan Evrópu annarsvegar (EUR EU) og alls heimsins hinsvegar (EUR OBS). Inní seinni tölunni er einnig aðsókn á Íslandi. Listinn sem hér fylgir er byggður á seinni tölunni (EUR OBS).