Ákvörðun um kvikmyndanám til LHÍ „vanhugsuð“, segir Friðrik Þór

„Þetta er fyrst og fremst sorglegt,“ segir Friðrik Þór Friðriksson rektor Kvikmyndaskóla Íslands í viðtali við RÚV um ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fela Listaháskólanum að annast kennslu kvikmyndanáms á háskólastigi.

Á vef RÚV segir:

Kvikmyndaskóli Íslands hefur lengi kennt kvikmyndanám á framhaldsskólastigi en sótti árið 2020 um flýtimeðferð hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu með það að markmiði að fá háskólaviðurkenningu.

„Við erum búin að bíða eftir því að fá viðurkenningu í 22 mánuði. Embættismennirnir hafa bara ekki gert neitt í þessum málum og ekki ráðuneytið heldur. Að fara að búa til nýja deild í listaháskólanum, ég sé það aldrei gerast nema fyrir um 500 milljónir á ári. Ég held þetta sé mjög vanhugsað,“ segir Friðrik í samtali við fréttastofu.

Kvikmyndaskólinn hefur nýlega flutt starfsemi sína í nýtt húsnæði við Suðurlandsbraut og hefur brátt nýtt skólaár. Friðrik segist telja að áhrifin af þessari ákvörðun stjórnvalda verði ekki mikil.

„Við hljótum að fá þessa háskólaviðurkenningu sem allra allra fyrst, annars er voðinn vís,“ segir Friðrik og bendir á að fjöldi erlendra nemenda sé við skólann. Nemendur sem komi með fé inn í íslenska hagkerfið.

„Í staðinn fyrir að leggja kostnað í þetta. Það kostar ríkið ekki neitt að fá okkur þessa viðurkenningu. Ég bara skil ekki stjórnmálamenn sem haga sér svona,“ segir Friðrik Þór Friðriksson.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR