Leynilögga eftir Hannes Þór Halldórsson hefur verið valin í aðalkeppni kvikmyndahátíðarinnar í Locarno, sem fram fer í Sviss dagana 4. – 14. ágúst.
Kvikmyndin keppir í aðalkeppni hátíðarinnar sem nefnist Concorso internazionale og keppir um Gyllta hlébarðann eða Pardo d‘Oro, ein virtustu kvikmyndaverðlaun sem veitt eru ár hvert. Locarno hátíðin er ein helsta hátíð Evrópu og fer hún nú fram í 74. skipti.
Leynilögga fjallar um grjótharða ofurlöggu sem er í baráttu við sjálfan sig á sama tíma og hann berst við hættulegustu glæpamenn landsins.
„Að frumsýna myndina á virtri hátíð eins og Locarno er sérstakur heiður fyrir okkur öll sem komum að myndinni. Þar sem lítið hefur verið um kvikmyndahátíðir vegna Covid er óvanalega mikill fjöldi mynda sem reynir að komast að á hátíðum og því er það mikil viðurkenning að vera valin,“ segir Lilja Ósk Snorradóttir framleiðandi hjá Pegasus.
Þetta er fyrsta kvikmynd sem Hannes Þór leikstýrir en myndin verður frumsýnd hér á landi 27. ágúst í Sambíóunum.
„Þetta er búið að vera mjög krefjandi og skemmtilegt ferli með frábæru fólki. Ég er enn að átta mig á að myndin hafi verið valin inn á hátíðina og hlakka til að sýna hana þar. Er samt enn spenntari fyrir því að sýna hana hér heima sem verður núna í lok ágúst,“ segir Hannes Þór Halldórsson leikstjóri.
Kvikmyndin er skrifuð af Nínu Petersen, Sverri Þór Sverrissyni og Hannesi Þór Halldórssyni. Myndin er framleidd af Lilju Ósk Snorradóttur fyrir Pegasus Pictures og með aðalhlutverk fara Auðunn Blöndal, Egill Einarsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Vivian Ólafsdóttir, Sverrir Þór Sverrisson og Björn Hlynur Haraldsson.