“Mikilvæg skjalfesting á óvenjulegu ástandi í veraldarsögunni – en vantar betri fókus,” segir Ásgeir H. Ingólfsson meðal annars á vef sínum Menningarsmygl um heimildamyndina Apausalypse eftir Anní Ólafsdóttur og Andra Snæ Magnason.
Ásgeir skrifar:
Kona dansar alein á flugbraut. Maður fer aleinn í sund. Lítill fugl vappar aleinn um bílakjallara.
Þetta gerðist allt fyrir rúmu ári þegar heimurinn var settur á pásu og vísindaskáldskapurinn varð skyndilega efni í heimildarmyndir. Palli var einn í heiminum varð skyndilega ekki bara tilvistarhryllingur í barnabók heldur hversdagur margra sem hættu sér út að labba.
Notaðu upp/niður örvahnappana til að auka eða minnka hljóðstyrkinn.
Þennan nýja veruleika reyna þau Anní Ólafsdóttir og Andri Snær Magnason að fanga í heimildarmyndinni Apausalypse. Hvernig þýðir maður þetta? Biðendir? Pásurök? Nei, íslenska heitið er Tídægra eftir frægum sagnabálki Giovannis Boccaccio, sem er nefndur í myndinni, en þar segja tíu manns hverjum öðrum sögur á meðan faraldur geisar í Flórens um miðja fjórtándu öld.
Rétt eins og í Tídægru Boccaccios finna þau Anní og Andri tíu viðmælendur, og þó, eru þeir ekki fleiri? Það er kannski stundum erfitt að telja, par er tekið í viðtal saman, sum ljóðskáld lesa bara ljóð, önnur lesa ljóð og fabúlera líka um ástandið.
Viðmælendurnir eru misgáfulegir eins og gengur. Örlítið einsleitur hópur kannski, að stórum hluta the usual suspects, óþarflega mörg kunnugleg andlit, þessi sem alltaf er hringt í þegar þarf fabúleringar. Þau hafa heldur ekki endilega fengið mikið tóm til að melta ástandið og íhuga það, auðvitað eru þetta oft hálfkaraðar hugsanir. Þau skjalfesta ákveðið augnablik í heimssögunni, augnablik sem reyndist verða lengra en við bjuggumst flest við í árdaga kófsins.
Sumir festast í klisjunum og mig langaði mest að labba út þegar Auður Eir Vilhjálmsdóttir prestur sagði aðgerðirnar vel heppnaðar af því ríkisstjórnin nýtti sér stjórnvisku Biblíunnar.
Aðrir finna forvitnilegri vinkla, Guðrún Eva Mínervudóttir er rödd viskunnar, galdrakona skáldskaparins, og Dóri DNA nær sér á strik eftir erfiða byrjun. Hann flytur okkur fyrst ljóð sem var engan veginn að ná mér en næst þegar hann birtist nær hann að lýsa einlæglega kergjunni og innilokunarkenndinni sem brýst út, bældri uppreisnargirni og óþoli gagnvart ástandinu.
Hann kemst kannski einna næst því að segja okkur áhugaverðar og persónulegar sögur af viðmælendunum og hér hefði vel mátt elta betur uppi sögur úr kófinu, frekar en fílósóferingar úr kófinu af þeirri einföldu ástæðu að alltof mikið af þessum fílósóferingum eru hálfkaraðar hugsanir, lítt áhugaverð rassvasaheimspeki.
Kannski hefði bara mátt tala við fleiri heimspekinga? Sigríður Þorgeirsdóttir er fulltrúi þeirra, og nú man ég að Guðrún Eva er heimspekimenntuð þótt hún starfi mest sem skáld, og þær eru langbestu viðmælendurnir. Sérstaklega Sigríður sem leyfir sér að hugsa jöfnum höndum um bestu og verstu mögulegu niðurstöðuna; bæði um núllstillinguna og endurmatið sem ástandið getur getið af sér en líka eftirlitssamfélagið sem er jafnlíkleg niðurstaða núna þegar við höfum fengið góða æfingu í slíku samfélagi.
En engu að síður, hér hefði líklega mátt kafa dýpra eftir sögum, sögum úr hversdeginum, sögum úr kófinu. Eða finna meiri og dýpri heimspeki, hvort sem er.
Þau ná hins vegar nokkuð vel að fanga samfélagsumræðuna vorið 2020 sem er forvitnileg heimild fyrir framtíðina en kannski ekki myndin sem við þurfum í dag. Ég hef saknað meiri framsýni í öllu kófinu, að við hugleiðum mögulega framtíð eftir kóf að meiri dýpt svo aðrir geri það ekki fyrir okkur, svo Jeff Bezos fangi okkur ekki bara í net heimsendingarinnar, hugmynd sem Dóri DNA viðraði raunar óbeint, að okkur hefði verið færð ákveðin tækni og að mögulega hefði bara verið beðið eftir rétta augnablikinu til að læsa okkur inni með tækjunum okkar og sjá hvernig við myndum spjara okkur.
Hér eru alveg frækorn af alvöru framtíðarhugleiðingum en líka ansi mikil innistæðulaus bjartsýni, bjartsýni sem hefur kannski ekki verið hugsuð sérstaklega langt. Einhver sér þetta til dæmis sem eitthvað sem gæti slegið á faraldur einmanaleikans, ein af þessum ofurbjartsýnu ályktunum, þvert á ástandið, sem engin rök fylgja.
Hvernig á þetta að færa okkur draumalandið? er spurning sem enn vantar svar við. Svör. Fleiri svör.
Og hér er líka feikimargt gott. Þetta er miklu betra en hefðbundinn íslenskur spjallþáttur um málefni hversdagsins, flestir viðmælendur hafa alveg sitthvað áhugavert fram að færa, en um leið er þetta kannski óþarflega nálægt formi spjallþáttarins, nær ekki alveg að taka skrefið lengra, alla leið inn í heimspekilegu esseyjumyndina.
Nema auðvitað myndrænt.
Myndheimur og hljóðheimur myndarinnar er nefnilega miklu forvitnilegri en öll þessi orð. Ingvar E. Sigurðsson er hreint frábær sem Palli sem er einn í heiminum og fer einn í sund, þarna sjáum við Ingvar dansa, sem er vannýtt auðlind. Ásta Fanney er skemmtileg sem tónskáld sem og dularfullt ljóðskáld sem birtist á milli atriða og kötturinn hennar Fríðu Ísberg sýnir stórleik á meðan Fríða les ljóð. Stjarna myndarinnar er þó ótvírætt dansarinn Unnur Elísabet Gunnarsdóttir sem dansar á flugbrautinni, í gegnum Leifsstöð, í gegnum mannleysið þar sem einu sinni voru heilu síldartorfurnar af fólki. Eins búa reglur kófsins til ákveðna fagurfræði sem gefur viðtölunum góðan heildarsvip. Þau eru öll tekin í tveggja metra fjarlægð, stundum meira, þannig er forvitnilegt að sjá Elísabet Jökulsdóttur tala í síma í gegnum glugga, en á endanum saknar maður samt nándarinnar þar. Sem er auðvitað ákveðin saga um kófið líka, þessi fjarlægu samskipti sem aldrei koma í stað þess að sitja fyrir framan manneskju og hlusta.
Mesta dýrmæti myndarinnar er fólgið í nokkrum ansi mögnuðum myndum af mannlausum heimi. Þær eru langsterkastar í manngerðu landslagi, náttúruskotin eiga minna erindi. Þarna eru fallegir hestar sem ríma lítið við efnið, þeirra veröld virðist lítið breytt, enda ekki fastir í borginni eins og borgargæludýrin og fuglinn í bílakjallaranum.
Þannig er myndin á endanum mikilvæg skjalfesting á óvenjulegu ástandi í veraldarsögunni. En hana vantar betri fókus, vantar fleiri sögur úr kófinu, vantar meiri tíma. Mögulega er rétt að óska eftir framhaldsmynd, líklega eru fleiri búnir að hugsa þetta lengra núna.