Mikil líkindi sögð með leikriti og þáttaröð: Tvö ólík verk segir leikstjóri þáttaraðarinnar, spark í magann segir leikskáldið

Kristín Eiríksdóttir rithöfundur og leikskáld flutti í gær pistil í Viðsjá á Rás 1 þar sem hún lýsir því að það hafi verið sem spark í maga að komast að því að þáttaröðin Systrabönd eru eins að efni til og upplagi eins og leikrit hennar Hystory.

Jakob Bjarnar Grétarsson fjallar um þetta á Visi.is:

Þáttaröðin Systrabönd, í leikstjórn Silju Hauksdóttir, var sýnd í Sjónvarpi Símans um páskana; fjallar um þrjár konur sem þurfa að horfast í augun við fortíð sína þegar jarðneskar leifar stúlku sem hvarf sporlaust á Snæfellsnesi á tíunda áratugnum finnast.

Fljótlega fór að bera á röddum á samfélagsmiðlum sem bentu á að þarna væri nánast um sama efni og upplegg að ræða og er í leikritinu Hystory eftir Kristínu sem leikhópurinn Sokkabandið sýndi í Borgarleikhúsinu 2015. Og hefur að efni til verið gefið út á bók.

Samkvæmt heimildum Vísis stefnir í dómsmál vegna höfundarréttarstulds en Kristín flutti pistil í Víðsjá þar sem hún fór yfir það hvernig málið horfir við henni. Og sú mynd er afgerandi dökk.

Spark í magann

Kristín vitnaði til innslags í menningunni í RÚV, sem henni var bent á, en þar var fjallað um Systrabönd sem að efni til væri alveg eins og Hystory. Efnistök og söguþráður; upplegg. Kristín sagði að enginn ætti einkarétt á þremur miðaldra konum sem hittast aldarfjórðungi eftir að hafa drepið unglingsstúlku í afbrýðikasti. Vegna stráks. Eftir að hafa drukkið of mikinn landa. Og neyðast til að díla við það.

En þetta hafi verið Déjà vu fyrir Kristínu. Þar hafi verið talað á nákvæmlega þeim sömu nótum og aðstandendur Hystory hafi gert; áherslur svo sem hvernig atburðir sem slíkir hafi mótað líf persóna, að lifa með skömminni og sektinni. Þetta væri sem tekið beint upp úr leikritinu og verið aðalatriði þáttanna. „Umfjöllunarefni eru ekki varin höfundarrétti. En að útfæra sömu söguna með sömu áherslum, má það virkilega?“

Kristín segir að það hafi verið sem spark í magann. Hún segir að Hystory hafi verið aðgengilegt öllum aðstandendum Systrabanda, sérstaklega þó aðgengilegt einum þeirra, Jóhanni Ævari Grímssyni sem átti frumkvæðið að verkefninu, skrifaði handritið ásamt Björgu Magnúsdóttur sjónvarps- og útvarpskonu hjá RÚV.

Jóhann frumsýndi verk á sama leikári, í Borgarleikhúsinu og Hystory: KennEth Mána. Jóhann Ævar hefur, að sögn Kristínar, tiltekið í tveimur viðtölum að hann hafi fengið hugmyndina að Systraböndum síðla hausts 2014. Kannski hefur hann fengið hana á kynningarfundi í Borgarleikhúsinu? Eða villst inn á æfingu í Borgarleikhúsinu? spyr Kristín. Hún segir að sér sýnist um afbökun á sínu höfundarverki að ræða.

Silja segir að um ólík verk sé að ræða

Silja Hauksdóttir, leikstjóri og einn handritshöfunda Systrabanda, sagði um það í Lestinni á Rás 1 nýverið að aðstandendur Systrabanda viti af þessum líkindum en að um tvö ólík verk væri að ræða. Og eigi sér sitthvorn innblásturinn.

„Systrabönd er innblásin af morði á stúlku í Bandaríkjunum 1992, sem var myrt af fjórum stúlkum. Mér skilst að verkið Hystory sé innblásið af íslenskum ofbeldisglæp. Það sem við höfum verið upptekin af í kringum ferlið í Systraböndum er að einblína á persónur sem eru að glíma við óuppgerðar sakir sínar. En þetta er alveg magnað hvað við erum öll oft að tappa inn í svipað sköpunarhiminhvolf og það var algjörlega tilfellið,“ sagði Silja.

HEIMILDVísir
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR