„Ósköp falleg og mannleg mynd um tvær týndar sálir sem mætast í óvænt í Hveragerði þar sem þær komast að mikilvægi þess að rækta garðinn sinn,“ segir Þórarinn Þórarinsson meðal annars í umsögn sinni í Fréttablaðinu um Þorpið í bakgarðinum.
Þórarinn skrifar meðal annars:
Hægeldað tilfinningahakk
Þorpið í bakgarðinum er notalegt skjól frá heimsins harmi en hrekkur skammt sem slíkt og þótt mennskur kjarni sögunnar sé hlýr þá svífur kuldaleg feigð yfir þessu Hveragerði þar sem Brynja og Mark rækta sorgir sínar, ótta og jafnvel sjálfsvígshugsanir.Samtöl þeirra tveggja knýja söguna áfram þannig að það er enginn hasar í gangi og hægagangurinn er slíkur að einhverjum kann að þykja nóg um. Slíkum er fátt hægt að segja annað en að slappa bara af.
Þetta er þannig mynd að það á bara að horfa og leyfa sögunni að mjaka sér að hjartastað og sá þar fræjum. Þegar upp er staðið rúmast nefnilega lífið allt í einum bakgarði og þaðan má taka helling með sér til þess að hugsa um og máta sjálfan sig við.
Marteini ferst ákaflega vel að hægelda myndina ofan í áhorfendur. Hann er að vísu löngu búinn að ná meistaratökum á því sem nú er tíska í kvikmyndagerð og kennt við hægan bruna og verður því tæpast sakaður um að hafa hér stokkið á vagninn. Bíómyndir verða nefnilega varla meira sous vide en frumraun hans One Point O frá 1994.
Tim hittir í mark
Myndin hvílir eðlilega helst á þeim Laufeyju og Tim í aðalhlutverkunum og sem betur fer missa þau hana aldrei. Laufey er nánast alltaf í mynd og rétt eins og myndin sjálf vinnur hún hægt og bítandi á og er að lokum orðin eins og góð vinkona sem mann langar til þess að taka utan um.Tim situr hins vegar svo áberandi notalega í hlutverki Marks að hann nær sterku sambandi við mann um leið og hann bankar fyrst upp á. Ákaflega lágstemmt sjarmerandi leikari með ofboðslega notalega nærveru á tjaldinu. Kannski ekki furða þar sem hann upplýsti í nýlegu viðtali við Fréttablaðið að hann vissi ekki betur en hlutverkið hafi að einhverju leyti verið skrifað með hann í huga.
Brynja kemst að kvikunni
Samleikur þeirra tveggja er áreynslulaus og týndu sálirnar sem þau leika ná ágætlega saman. Manni finnst þó að það hefði mátt nota rólegheitin til þess að kynnast persónunum aðeins betur. Undir lokin er að vísu fyllt aðeins upp í myndina af Mark með einræðu en það hefði verið fengur að því að fá að komast aðeins nær Brynju.Persónurnar komast þó hægt og rólega nær kviku hvor annarrar þar sem allt er í raun botnfrosið og litlar líkur á gosi. Leikar æsast þó til muna þegar móðir og systir Brynju ráðast inn í þorpið og raska sorgarjafnvæginu þannig að Brynja og Mark geta ekki lengur aðeins speglað sig hvort í öðru og þurfa að horfast í augu við sjálf sig.
Þá springur sagan líka loks út og fegurð hennar kristallast í því hversu langt fólk þarf oft að fara og leita víða til þess að komast að því að maður verður að rækta garðinn sinn.