1947 hóf faðir hans Ósvaldur Knudsen að kvikmynda Heklugosið. Úr varð kvikmyndin Eldur í Heklu en hún var ekki frumsýnd fyrr en 1972. Ósvaldur gerði síðan fjölmargar heimildamyndir þar sem viðfangsefnið var fyrst og fremst íslensk náttúra en einnig mannlíf. Þetta tengist Vilhjálmi með beinum hætti, ekki aðeins byrjaði hann á unglingsárum að aðstoða föður sinn heldur tók síðar að sér að halda áfram starfi hans og sýna myndir hans (og sínar eigin) í vinnustofu þeirra feðga við Hellusund í miðborg Reykjavíkur.
Vilhjálmur var jafnframt í hópi fyrstu kynslóðar íslenskra kvikmyndagerðarmanna sem sóttu nám í faginu, en hann nam við London Film School frá 1964.
Ég kynntist Vilhjálmi uppúr 1980, þá á unglingsaldri, hafði áttað mig á því að hann var maðurinn sem átti græjur til kvikmyndagerðar og var bóngóður þegar til hans var leitað. Hann kom mér fyrir sjónir sem hæglátur maður með lágstemmdan húmor, það var dálítið eins og hann hefði gaman af bröltinu í ungu fólki sem vildi gera kvikmyndir með öllu því brambolti sem því fylgdi og keyrði á ástríðunni í glímunni við flókið sköpunarform. Hann hafði semsagt skilning á þessu og þolinmæði, til dæmis gagnvart því að áhuginn var miklu meiri en auraráðin.
Sá sem á græjur verður gjarnan ákveðin miðstöð, leiðirnar liggja þangað. Vinnustofa Vilhjálms, sem þá var í Brautarholtinu, var einmitt slíkt torg um skeið. Þarna komu kvikmyndagerðarmenn til að fá hjá honum tæki eða ráðleggingar og rákust um leið á kollegana og skiptust á fréttum úr baráttunni yfir kaffibolla. Þegar maður hugsar til baka var tilfinningin einhvernveginn sú að hann vildi hjálpa til að koma þessu öllu af stað, þessari miklu sköpunarbylgju sem þarna var að taka á sig mynd. Kannski vegna þess að hann vildi sjá kvikmyndagerðarsamfélagið stækka og finna sig sem hluta af því, fram að þessu voru þeir svo fáir sem stunduðu kvikmyndagerð utan veggja Sjónvarpsins (og þar var á þessum tíma reyndar afar takmarkaður skilningur á kvikmyndagerð meðal helstu stjórnenda, en margir starfsmanna brunnu fyrir þennan málstað).
Um leið var Vilhjálmur í dálítið öðrum fasa. Viðfangsefni mynda hans (og föður hans) voru fyrst og fremst eilífðin sjálf, hringrás náttúrunnar og hin stöðuga sköpun hennar. Eldgosamyndir; Vestmannaeyjar, Kröflueldar, Hekla og svo framvegis. Áherslan var ekki endilega á að klára myndirnar heldur halda áfram gerð þeirra, bæta stöðugt við. Hann var einhvernveginn alltaf að, í samhljómi við viðfangsefnið. Það brast á með jarðeldum og Vilhjálmur var rokinn þangað undireins. Svo kom hann aftur og aftur. Síðan sýndi hann það sem tekið hafði verið upp í Hellusundsbíói – eða Red Rock Cinema eins og það kallaðist fyrir túrista, sem streymdu þangað til að horfa á íslensk undur. Hér má skoða umsagnir gesta um upplifun þeirra af bíóinu og myndunum.
Listar yfir aðkomu hans að kvikmyndum, hvort sem er á Kvikmyndavefnum eða á IMDb eru afar fátæklegir og fyrir þann sem ekki þekkir til mætti ætla að lítið lægi eftir hann. Þarna vantar reyndar margar myndir hans (sama má segja um Ósvald) en jafnvel þó þær væru þarna allar væri það ekki nóg. Hans framlag til þess verkefnis að segja söguna um Ísland í lifandi myndum var stærra og meira.
Það var því ekki að ástæðulausu að Vilhjálmur hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar 2012 fyrir framlag sitt til kvikmyndagerðar og ómetanlega söfnun og varðveislu heimildarmynda um íslenska náttúru og lifnaðarhætti.
Í viðtali sem Elín Pálmadóttir tók við hann 1993 og birtist í Morgunblaðinu, fer hann í stórum dráttum yfir sögu sína og föður síns. Þar ræðir hann meðal annars um hvernig hann, þá unglingur, kom að kvikmyndum föðurs síns:
Hve tíðarandinn hefur breyst má sjá á því að nafn Vilhjálms kom þarna ekki fram á þessum kvikmyndum. „ Mér fannst það ekki viðeigandi heldur, þetta voru ekki mínar kvikmyndir. Þetta voru kvikmyndir föður míns. Fólk á íslandi vissi ekkert hvernig kvikmyndagerð fór fram. Það hefði bara virkað tilgerðarlega að segja að þessi hefði klippt kvikmyndina eða verið auka kvikmyndatökumaður. Einfaldlega var notað: „Ósvaldur Knudsen gerði kvikmyndina.“ Ég var alveg sáttur við það,“ segir Vilhjálmur og bætir við: „Faðir minn vann alla tíð að menningarstarfsemi fyrir eigið fé. Með sparnaði í heimilishaldi og með mikilli vinnu tókst honum að vinna alveg einstakt afrek í menningarsögu landsins.“
Og á öðrum stað í sama viðtali segir hann frá því grátbroslega skilningsleysi sem ríkti hjá hinu opinbera gagnvart kvikmyndagerð:
„Ég og faðir minn vorum farnir að endurnýja eldra frummyndaefni áður en hann dó og ég hefi haldið því starfi áfram. Þetta hefur kostað gífurlega peninga í útlögðum kostnaði, en vegna þess að enginn veit í rauninni hvaða starf er unnið hér í Hellusundi hefur mér gengið mjög erfiðlega að fá skattayfirvöld til að viðurkenna þetta sem útlagðan kostnað. Þeir, eins og fleiri, virðast halda að ég hreinlega lifi góðu lífi á eldri kvikmyndum föður míns og framtalinn útlagður kostnaður séu kjánalegir tilburðir til að koma einkaneyslu og skemmtiferðum til útlanda til frádráttar til skatts. Þau 18 ár síðan faðir minn dó hefi ég kvikmyndað öll umbrot í Kröflu, Vatnajökli og Heklu og kvikmyndað ýmislegt annað líka, sem þeir virðast telja til skemmtiferða. Faðir minn stóð í slíku stappi líka þau 3 og hálft ár sem hann vaktaði Surtsey og reyndar alla tíð með alla sína starfsemi. Hann hreinlega varaði mig við,“ segir Vilhjálmur.
Surtseyjargosið sem hófst 1963 skapaði ákveðinn fjárhagsgrundvöll fyrir áframhaldandi starfsemi og síðan hin tíðu eldgos, sem Vilhjálmur segir að hafi verið þeirra lifibrauð eftir það, ef svo mætti að orði komast. „Kvikmyndun Surtseyjargossins 1963 til 1967 kostaði gífurlegt fé. Þá var ekki hægt að gera þetta í hjáverkum. Faðir minn hætti að starfa við málningarfyrirtæki sitt til að helga sig þessu á sjötugsaldri og fékk Kristján Guðlaugsson málarameistara til að annast daglegan rekstur. Ég fór á vettvang með föður mínum strax á fyrsta degi gossins til að kvikmynda, þá 19 ára gamall,“ segir hann. „Við höfðum ekki efni á að greiða 200% tolla af tækjum og urðum að fá hina og þessa skipverja í utanlandssiglingum til að smygla aðföngum til landsins til að hægt væri að gera þetta eins vel og kostur var. Á sama tíma gat hvaða útlendingur sem var komið til landsins með alls konar forláta tæki og þá iðulega frítt með íslensku flugfélögunum og með alls kyns fyrirgreiðslu, fríðindi og peningastyrki frá íslenskum stjórnvöldum.“
Í grein hans í Morgunblaðinu frá 1999 er síðan gerð enn betur grein fyrir þeim erfiðleikum sem þeir feðgar áttu við að etja.
Hvíl í friði Vilhjálmur Knudsen og takk fyrir allt.