Aðgerðir til stuðnings kvikmyndagerð kynntar, nánari útfærsla væntanleg

Vegna afleiðinga farsóttarinnar hafa stjórnvöld kynnnt aðgerðir til stuðnings listum og fela þær meðal annars í sér viðbótarframlag til Kvikmyndasjóðs uppá 120 milljónir, auk þess sem þeir framleiðendur sem þegar hafa fengið vilyrði um endurgreiðslu geta fengið hluta hennar fyrirfram. Von er á nánari útfærslu aðgerða á morgun.

120 milljóna króna viðbótarframlag til Kvikmyndasjóðs

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur fram að Kvikmyndasjóður fái 120 milljónir króna og að skilyrði styrkveitinga séu eftirfarandi:

  • Verkefnið hefjist eigi síðar en 1. september 2020 og verði lokið fyrir 1. apríl 2021.
  • Um sé að ræða átaksverkefni sem styðji við fjölbreytta starfsemi á sviði lista og menningar með áherslu á sköpun og virka þátttöku listamanna í menningarlífi landsmanna.
  • Verkefnið uppfylli grunnmarkmið fjárfestingarátaksins um að styðja við eftirspurn og atvinnu til skamms tíma með arðbærum verkefnum.
  • Sýnt sé fram á gildi verkefnis og mikilvægi þess fyrir landsmenn.
  • Styrkveiting sé til undirbúnings, þróunar og framkvæmd verkefnis.
  • Ítarlegar upplýsingar liggi fyrir um verkefnið, auk tímaáætlunar þess.
  • Ekki verða veittir styrkir til þeirra sem njóta listamannalauna í 6 mánuði eða meira árið 2020.

Sótt er um styrkina á vef viðkomandi sjóðs. Stjórnir fyrrgreindra sjóða munu byggja mat á umsóknum á ofangreindum skilyrðum og almennum úthlutunarreglum sínum. Fjármála- og efnahagsráðuneyti mun taka saman skýrslu um árangur fjárfestingarátaksins og því verður ábyrgðaraðilum einstakra verkefna gert að greina frá t.d. hversu mörg störf sköpuðust og hvernig dreifing þeirra var milli kynja og landshluta.

Vonir standa til að nánari útfærsla aðgerðanna verði kynntar á morgun miðvikudag.

Framleiðendur geta fengið hluta endurgreiðslu fyrirfram

Í gær var kynnt sérstök aðgerð varðandi endurgreiðslur til þeirra sem þegar hafa hlotið vilyrði um slíkt. Segir á vef Stjórnarráðssins:

Í dag var í Stjórnartíðindum birt reglugerð frá ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem heimilar framleiðendum kvikmynda að óska eftir sérstakri útborgun á endurgreiðslu á milliuppgjörum verkefna sem þegar hafa fengið vilyrði fyrir endurgreiðslu kostnaðar. Með breytingunni er komið til móts við framleiðendurnar vegna þeirra áhrifa sem COVID-19 hefur haft á kvikmyndagerð á Íslandi.

Framleiðendur kvikmynda eða sjónvarpsefnis á Íslandi eiga kost á endurgreiðslum frá stjórnvöldum á allt að 25% af framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi. Endurgreiðslurnar heyra undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sem hefur falið Kvikmyndamiðstöð Íslands umsjón þeirra.

COVID-19 heimsfaraldurinn hefur haft töluverð áhrif á kvikmyndagerð á Íslandi, þar sem frestað hefur þurft tökum og framleiðslu á verkefnum. Þá hefur frumsýningum einnig verið frestað vegna lokunar kvikmyndahúsa. Fjármögnun flestra íslenskra kvikmynda og útgreiðsla styrkja er háð framvindu verkefna og lokum þeirra. Þannig greiða flestir sjóðir lokagreiðslu sína við skil á verkefnum og frumsýningu. Við frestun frumsýninga frestast því greiðslurnar og hefur þetta töluverð áhrif á greiðsluflæði verkefnanna.

Með reglugerðarbreytingunni verður framleiðendum heimilt, á tímabilinu 1. apríl til 1. júlí 2020, að óska eftir sérstakri útborgun á endurgreiðslu að hluta. Þetta á við verkefni sem áður hefur fengið vilyrði fyrir endurgreiðslum, þó framleiðslu sé ekki lokið. Þessi hlutaendurgreiðsla kemur til frádráttar fullri endurgreiðslu við lokauppgjör. Sérstök skilyrði eru sett fyrir hlutaendurgreiðslunni, m.a. um áhrif COVID-19 á verkefnið.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR