Sníkjudýrið felldi Hollywood

Rammi úr Parasite eftir Bong Joon ho.

„Sigur Hildar Guðnadóttur er sérkafli í afþreyingarmenningarsögunni og Parasite boðar jafnvel hvorki meira né minna en fall Hollywood og heimsmyndar brjáluðu Jókeranna,“ skrifar Þórarinn Þórarinsson í Fréttablaðið og ræðir nýliðin Óskarsverðlaun við Ásgeir H. Ingólfsson og Hrönn Sveinsdóttur.

Fyrir utan Hildar þátt Guðnadóttur, sem eðlilega þandi taugar Íslendinga til hins ítrasta á sunnudagskvöld, var fátt sem benti til annars en að þessi árshátíð hinna frægu og fallegu í Hollywood yrði í rétt meðallagi spennandi og hefðbundin aðalfundarstörf yrðu afgreidd fyrirsjáanlega og fumlítið.

Annað kom þó heldur betur á daginn í Los Angeles þegar múrar hrundu, glerþök sprungu og fjarstæðukennd met voru slegin þannig að 92. Óskarsverðlaunahátíðin er þegar komin á spjöld afþreyingarmenningarsögunnar og markar vonandi og að öllum líkindum mikilvæg tímamót.

Um afrek og mergjaða sigurgöngu kvikmyndatónskáldsins þarf vart að fjölyrða og þótt alltaf geti brugðið til beggja vona á Óskarnum þá vissum við flest í hjörtum okkar að Hildur hlyti verðskuldað mjög að hljóta verðlaunin sem þó eru gjörn á að villast af réttri leið.

Margþættur og merkingarbær sigur Hildar kom því ekki sérstaklega á óvart og þá hvergi nærri jafn mikið og að Parasite hlaut verðlaunin sem besta myndin. Ekki besta erlenda myndin, heldur besta myndin, og mergsaug þannig mestallan kraftinn úr 1917 sem var fyrirfram talin langsigurstranglegust.

Hollywood fellur

Þetta mikla undur frá Suður-Kóreu sem hefur farið sigurför um heiminn þótti í raun ólíklegast til að hljóta þessa miklu upphefð enda einnig að etja kappi við aðlaða leikstjóra á borð við Scorsese og Tarantino. Kvikmyndaheimspressan taldi jafnvel hinn umdeilda Joker eiga meiri möguleika en Sníkjudýr Bong Joon Ho.

Til þess að setja mikilvægi þessa vals akademíunnar í samhengi er rétt að halda til haga að á þeirri tæpu öld sem verðlaununum hefur verið útdeilt hafa aðeins ellefu myndir á öðru tungumáli en ensku fengið tilnefningu sem besta myndin.

Þar á meðal eru eðalmyndir eins og Life is Beautiful, Crouching Tiger, Hidden Dragon, Roma og hin franska The Artist sem var valin besta myndin 2012 og hlaut því sömu verðlaun og Parasite núna en er tekin út fyrir sviga þar sem hún var þögul og greindi sig þannig ekki frá öðrum myndum á sömu forsendum.

„Þetta skiptir öllu máli. Hollywood féll síðasta sunnudagskvöld, þegar það var nótt hjá okkur,“ segir Ásgeir H. Ingólfsson, menningarrýnir og ritstjóri Smygl.is, um hversu mikilvæg tímamót er í raun um að ræða.

Sníkjudýr í þjóðarlíkama

„Ameríska heimsveldið féll þetta kvöld. Vígi hinnar amerísku Hollywood-bíómyndar sem alfa og ómega var að falla, en ástæðurnar fyrir því að Bandaríkin voru heimsveldi tuttugustu aldarinnar voru tvær: Hollywood og Coca-Cola.

Núna er Coca-Cola framleitt í fjarlægum löndum og Hollywood er fallið. Hollywood var síðasta vígi heimsveldis sem er með verksmiðjur í öllum heimshlutum en er að molna að innan,“ heldur Ásgeir áfram.

„Þetta Sníkjudýr sem Parasite er hefur laumast inn í þjóðarlíkama Ameríku og fundið síðasta vígið: Hollywood. Ameríka er ekkert án Hollywood. Án Hollywood er Ameríka bara þjóðsaga um villta vestrið, vestrið sem enginn myndi þekkja ef ekki væri fyrir Hollywood-stjörnur eins og Clint Eastwood og John Wayne.“

Heimsmynd Jókeranna

„En þetta er ekki bara fall heimsveldis. Þetta er mögulega augnablikið sem olíuskipið mikla og þunga, sem heimssagan er, byrjar að snúast hægt og örugglega,“ segir Ásgeir og veðjar á að um kraftaverk í heimi brjálaðra grínara sé að ræða.

„Fyrir síðustu helgi var heimsendir í nánd, Trump og Orban og Boris Johnson voru valdamestu menn plánetunnar og slíkt samansafn af bandbrjáluðum Jókerum endar alltaf á því að einhver ýtir „óvart“ á kjarnorkusprengjuhnappinn, en skyndilega er komið kóreskt sníkjudýr í kjarnorkusprengjurnar þeirra. Kóreskt sníkjudýr sem étur kapítalismann að innan.“

Loksins, loksins

„Af því núna, loksins, vann besta bíómyndin stærstu verðlaunin af því hún var best. Ekki af því hún var bandarísk eða frönsk eða kóresk, nei, af því einmitt þessi kóreska mynd var besta bíómyndin sem var frumsýnd í heiminum árið 2019.

Og það er meira kraftaverk en margur hyggur og raunar heimssögulegur atburður sem sagnfræðingar framtíðarinnar munu skrifa langa kafla um, ef okkar samtími verður svo heppinn að fá sagnfræðinga til að skrifa um sig.“

Sníkjudýr í Paradís

Parasite hefur verið í sýningum í Bíó Paradís síðan hún var frumsýnd á RIFF í september og er orðin aðsóknarmesta myndin í kvikmyndahúsinu frá upphafi. „Hún er búin að slá út Moonlight og Óþekkta hermanninn,“ segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar, og bendir á myndina sem ágætt dæmi um menningarlegt mikilvægi kvikmyndahússins sem nú berst í bökkum.

„Það er alveg á hreinu að Parasite hefði varla komið í bíó hérna nema hér og þá væru fáir búnir að sjá hana á Íslandi. Þetta er eins og með Moonlight á sínum tíma. Bíó Paradís var bara með hana.“

Hrönn bendir á að aðgengi að myndum utan Hollywood sé ekki aðeins bundið við bygginguna við Hverfisgötu. „Fjöldinn allur af stærstu kvikmyndum ársins á kvikmyndahátíðum kemur til Íslands gegnum Bíó Paradís sem textar þær og gefur út á VOD og síðan í sjónvarp. Þannig að það snertir þig ef Bíó Paradís verður lokað jafnvel þótt þú búir á Raufarhöfn eða Akureyri. Þú hefur þá ekki lengur aðgang að þessum myndum á íslenskum markaði þótt þú farir aldrei á Hverfisgötuna,“ segir Hrönn sem telur menningarlæsi þjóðarinnar beinlínis í húfi.

Sjá nánar hér: Sníkjudýrið felldi Hollywood

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR