„Sé litið á Gullregn sem stúdíu á mannlegri hegðun, þar sem stjórnsemi, þöggun og skömm ráða för, er hún uppfull af áhugaverðum atriðum þar sem hinn sterki leikhópur myndarinnar nýtur sín vel,“ segir í umfjöllun Heiðu Jóhannsdóttur um kvikmyndina Gullregn í Menningunni á RÚV.
Heiða skrifar:
Gullregn hverfist um öryrkjann og harðstjórann Indíönu Jónsdóttur, sem býr sér til nokkurs konar vígi í íbúð sinni í fjölbýlishúsi í Breiðholti þar sem vaxandi fjöldi íbúa af erlendum uppruna veldur henni sífellt auknu hugarangri. Ómurinn af píanóæfingum unglingsstúlkunnar Chi á næstu hæð verður þannig smám saman að eitri í beinum Indíönu sem magnast þegar líður á söguna. Raunar eru það hugarangur af ýmsum toga sem hefur valdið einangrun og sjálfsskipaðri innilokun Indíönu. Í stað þess að taka þátt í samfélaginu hefur hún gert sér upp misraunverulega krankleika og gengið, að því er virðist, á lagið með að leita sér framfærslu í félagslega kerfinu. Einkason sinn Unnar hefur hún að sama skapi ofverndað og fengið hann metinn sem öryrkja á grundvelli almenns veikleika hans sem persónu, auk meðal annars athyglisbrests- með ofvirkni, sem og kuldaofnæmis.
Eins og ráða má af lýsingunum hér að ofan nálgast frásögnin sögupersónur að mörgu leyti í gegnum hið spaugilega og fjarstæðukennda, þar sem Indíana birtist sem nokkurs konar ýkjumynd af bótasvindlara par exellence, persónugerð sem spyrja má hvort fyrirfinnist yfirleitt annars staðar en í skáldskap. Sjúkleg stjórnunarárátta Indíönu og ísmeygilegt áhrifavald birtist jafnframt í því hvernig hún lætur vinkonu sína Jóhönnu snúast í kringum sig, þó svo að sú síðarnefnda glími við alvarlegar afleiðingar hryggmeiðsla. Sem sögupersóna myndar Jóhanna líka skýrt mótvægi við Indíönu, þar sem hún er jafn opin fyrir menningarlegum fjölbreytileika í umhverfi sínu og Indíana er lokuð.
Harðstjóri með græna fingur
Þegar frásögnin hefst er hinn nær fertugi Unnar að byrja að standa á eigin fótum og finna sig í lífinu, meðal annars í gegnum björgunarsveitarstarf. Hann hefur kynnst konu, hinni pólsku Daniellu, sem færir honum heilbrigðari sýn á sjálfan sig og tilveruna. Þegar Unnar kynnir Daniellu fyrir Indíönu líst henni ekki á blikuna, og má vart milli sjá hvort Indíana óttast frekar, að fá „útlending“ inn í fjölskylduna eða að missa áhrifavald sitt yfir einkasyninum.
Á sama tíma birtist önnur ógn í lífi Indíönu. Fulltrúi umhverfisráðuneytisins ber að dyrum og færir Indíönu óhugsandi tíðindi: Gullregnið sem hún hefur ræktað í garðskika sínum við íbúðina skal fjarlægt vegna erlends uppruna síns, þar eð það barst ekki til landsins fyrr en eftir þarsíðustu aldmót. Tákngildi gullregnsins er sterkt í sögunni, og endurspeglar ákveðna leiðarspurningu í kvikmyndinni um hvað teljist íslenskt og hvað „útlent“, og hvað teljist samþykkt í samfélaginu og hvað utangarðs.
Næm skoðun á persónum
Þó svo að verkið staðsetji sögupersónur sínar mjög kyrfilega í tilteknum félagslegum aðstæðum og í þekkjanlegu umhverfi Fellahverfisins í Breiðholti, mótast það einnig af ákveðnum framandgervingaráhrifum. Ævintýrlega vel útfærð leikmynd íbúðarinnar er heill heimur út af fyrir sig í því samhengi og gulleit, lágstemmd lýsingin gefur vistarverum Indíönu ögn ókennilegan blæ, sem endurspeglar átök í sálarlífi þeirrar margflóknu persónu sem hún er. En samhliða þessari framandgervingu og á stundum kaldranalegu gamansemi einkennist frásögnin af næmri skoðun á sögupersónum. Í vinkonusambandinu skín til dæmis í umhyggju þegar Indíana reynir að fá Jóhönnu til að horfast í augu við það sjúka samband sem hún á í við kærastann Hjalta Pétur, sem Jón Gnarr leikur.
Kvikmyndatónlistin miðlar einnig þessu tvísæi í frásögninni, en þar er sleginn í senn sposkur og harmrænn tónn. Mugison semur tónlistina í myndinni, sem hljómar hér í glæsilegum flutningi og útsetningu. En tónlistin sem hljómar utan söguheims er að sama skapi ágeng og túlkandi, og raunar svo innvikluð í tilfinningalíf persónanna að hún er jafnan skrefi á undan leikrænu frásögninni í forspá sinni á hrakandi lukku söguhetjanna. Depurð, ankannaleika og jafnvel gróteskum hryllingstóni er smám saman stefnt gegn fögrum manneskjum í ötulli og bjartsýnni hamingjuleit, sem reynast eiga sér einskis ills von, líkt og gullregnið sem er rifið upp með rótum af óviðráðanlegu kerfisafli.
Setur söguheim á hliðina
Þegar líður að uppgjöri verksins, er ekki frá því að hinn gamansami tónn og næm skoðun á harmrænum veruleika lendi í átökum. Raunar verður ákveðið misgengi á milli absúrdstemmningar stofudramans og þeirrar félagslegu skoðunar sem er óneitanlega í miðpunkti verksins. Það er miður því söguheimurinn ber sig vel uppi framan af, og er í góðu tragikómísku jafnvægi, þar til ofurdramatík og skyndilegt upplýsingaflæði um bernskubakgrunn Indíönu í lokin setur hann á hliðina.
En þegar litið er á Gullregn sem stúdíu á mannlegri hegðun, þar sem stjórnsemi, þöggun og skömm ráða för, er hún uppfull af áhugaverðum atriðum þar sem hinn sterki leikhópur myndarinnar nýtur sín vel. Sigrún Edda Björnsdóttir er einkar mögnuð í hlutverki Indíönu, þessarar stóru sögupersónu, sem er nokkurs konar klassísk andhetja, undirlögð af innri átökum. Halldóra Geirharðsdóttir fer með hlutverk Jóhönnu og er samleikur þeirra Sigrúnar Eddu eins og áralangt og fallega þroskað vinasamband. Hallgrímur Ólafsson fer með hlutverk sonarins og gæðir hann Unnar viðkvæmni og góðmennsku sem má sín ekki mikils gegn ofurvaldi móðurinnar. Pólska stórleikkonan Karolina Gruszka leikur Daniellu og kemur með sterkt mótvægi við áhlaupakraft Indíönu, en kemur einnig inn með annan leikstíl en hinn þétti leikhópur úr leikverkinu. Á heildina litið er Gullregn áhugverð kvikmynd, svolítið rásandi eins og sögupersónur hennar, en vandað framlag í þá uppgangstíma sem nú ríkja í íslenskri kvikmyndagerð.
Sjá nánar hér: Áhugavert, rásandi en vandað Gullregn