Heiða Rún Sigurðardóttir (Heida Reed) er tilnefnd sem besta leikkonan á C21’s International Drama Awards fyrir túlkun sína á Stellu Blómkvist í samnefndum sjónvarpsþáttum framleiddum af Sagafilm sem sýndir voru í Sjónvarpi Símans.
Í flokknum um bestu leikkonuna eru tilnefndar ásamt Heiðu, Claire Foy sem lék drottninguna í The Crown, Amy Adams fyrir Sharp Objects, Jodie Comer og Sandra Oh fyrir leik sinn í Killing Eve og Laura Linney fyrir Ozark.
Heiða Rún hefur gert það gott í leiklistarheiminum en hún lék meðal annars í Poldark sem sýndir hafa verið á RÚV síðustu ár. Þættirnir um Stellu Blómkvist fengu góðar viðtökur hér á landi en þeir hafa einnig verið sýndir í Frakklandi, Spáni, Belgíu, Hollandi og á Norðurlöndunum svo eitthvað sé nefnt.
Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn á St. Pancras Renaissance hótelinu sem hluti af C21’s Content London ráðstefnunni þann 28. nóvember næstkomandi.