Róbert Ingi Douglas leikstjóri og handritshöfundur hefur verið ráðinn sem kvikmyndaráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Á sama tíma var gengið frá ráðningu Önnu Maríu Karlsdóttur framleiðanda, sem hefur starfað sem kvikmyndaráðgjafi hjá KMÍ í tímabundinni stöðu frá því í júní á þessu ári. Þá hefur Svava Lóa Stefánsdóttir verið ráðin í starf skrifstofumanns og hóf störf í október.
Þetta kemur fram á vef KMÍ og þar segir ennfremur:
Róbert Ingi Douglas
Róbert Ingi hefur víðtæka reynslu á sviði kvikmynda. Hann hefur starfað sem leikstjóri, handritshöfundur og framleiðandi frá árinu 1999 til dagsins í dag og gert bæði heimildamyndir og leiknar myndir. Á árunum 2016-2017 starfaði hann sem kennari við Kvikmyndaskóla Íslands og árin 2007-2016 vann hann í Kína sem ráðgjafi og klippari auk þess að kenna námskeið í framleiðslu og leikstjórn við alþjóðadeild Bejing Film Academy.
Róbert Ingi stundaði nám í fjölmiðlafræði við Ulster háskóla á Norður Írlandi árin 1993-1995 og hefur sótt námskeið og vinnusmiðjur Moonstone, Channel 4 og SKL, auk nokkurra í Kína og Hong Kong.
Anna María Karlsdóttir
Anna María býr yfir mikilli reynslu af íslenskri kvikmyndagerð þar sem hún hefur m.a. starfað sem kvikmyndaframleiðandi um tveggja áratuga skeið. Hún starfaði hjá Kvikmyndasjóði við alþjóðasamskipti og kynningar á árunum 1991-1997 og sat þá jafnframt í stjórn Scandinavian Films. Hún var stjórnandi Kvikmyndahátíðar í Reykjavík frá 1998-2001 og var stofnandi og einn eigenda dreifingarfyrirtækisins Græna ljóssins frá 1997-2004. Anna María hefur einnig verið virk í félagsstörfum kvikmyndagerðarmanna þar sem hún var formaður Íslensku sjónvarps- og kvikmyndaakademíunnar, ÍKSA, frá 2006-2007, sat í stjórn SÍK árin 2009-2015 og í Kvikmyndaráði frá 2013-2016 auk þess að hafa tekið þátt í starfi félags kvenna í kvikmyndagerð á Íslandi, WIFT.
Anna María lauk námi í teiknimyndagerð frá Animation Studio í Barcelona árið 1982. Frá júnímánuði á þessu ári hefur hún starfað sem kvikmyndaráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands í tímabundinni stöðu.
Svava Lóa Stefánsdóttir
Svava Lóa er með BA gráðu í sagnfræði og kvikmyndafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands, MA gráðu í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.
Frá árinu 2016 hefur hún verið framleiðandi og einn af þremur eigendum arCus films sem er íslenskt kvikmyndafyrirtæki. Hún starfaði sem dagskrárstjóri Stockfish Film Festival frá 2017-2018 og vann við markaðsmál, dreifingu og framleiðslu fyrir Askja Films frá 2015-2016. Hún var verkefnastjóri miðasölu og yfir dagskrárdeild hjá Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, á árunum 2012-2014 og framleiðandi fyrir sömu hátíð árið 2015. Árin 2007-2011 starfaði Svava Lóa hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur sem sérfræðingur og verkefnastjóri sýninga, viðburða og safnfræðslu.