„Einlæg og íhugul mynd sem nær að draga fram hugarástand aðalpersónunnar á lifandi og listrænan hátt“, segir Gunnar Theodór Eggertsson um Adam eftir Maríu Sólrúnu Sigurðardóttur í Lestinni á Rás 1.
Gunnar Theodór segir meðal annars:
Adam kom mér skemmtilega á óvart og ég held að það hafi verið að hluta til vegna þess að myndin var frumsýnd hér á landi á Alþjóðlegri barnakvikmyndahátíð (en þar áður var hún sýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín, þar sem hún keppti um krystalbjörninn). Á barnahátíðinni var hún reyndar sett í unglingaflokk, en engu að síður grunar mig að tengslin við hátíðina geri að verkum að Adam hljómi eins og hún sé frekar stíluð á yngri áhorfendur heldur en eldri – en sú er sannarlega ekki raunin. Þetta er einlæg og íhugul mynd sem nær að draga fram hugarástand aðalpersónunnar á lifandi og listrænan hátt. Myndin virkar í alla staði persónuleg, jafnvel þótt maður þekki ekki til persónulegra tenginga leikstjórans við efnið, en aðalleikarinn Magnús Maríuson er sonur leikstjórans, myndin er að hluta tekin upp í heimahúsum og sjálf hefur María Sólrún þurft að horfast í augu við erfið veikindi sinnar eigin móður. Þetta skilar sér, beint eða óbeint, í huglægri og nokkuð draumkenndri mynd sem hikar ekki við að blanda neðansjávarupptökum saman við annars nokkuð raunsæislega frásögn, eða klippa sundur atriði og skammta upplýsingum brotakennt til áhorfenda. Þótt Adam tali til okkar beint í gegnum innri mónólóg, þá fer ekki of mikið fyrir röddinni og Adam umbreytist aldrei í hefðbundinn sögumann, heldur er áherslan miklu frekar á myndefnið, klippingu, myndmálið og nærmyndir af tilfinningaríku andliti aðalpersónunnar. Magnús Maríuson er mjög fínn í aðalhlutverkinu og allt frá fyrstu skotum má finna eftirminnileg atriði sem segja margt um persónuna án þess að færa nokkuð í orð; til dæmis hvernig Adam fyllir upp í tómarúm íbúðarinnar með því að spila teknótónlist mömmu sinnar svo hátt að það ærir nágrannana, eða þegar hann liggur með hátalara í fanginu og hlustar á rafmagnaðan taktinn – hjartslátt móðurinnar – í gegnum líkamann.
Sjá nánar hér: Einlæg, íhugul og heillandi mynd