Tvö verkefni sem Jón Atli Jónasson kemur að sem handritshöfundur hafa verið valin á fjármögnunar- og kynningarmessur í vor. Þetta eru annarsvegar finnska þáttaröðin Arctic Circle sem verður kynnt á MIPDrama Buyers’ Summit í Cannes þann 8. apríl og hinsvegar þáttaröðin Violator sem kynnt verður á fjármögnunarmessunni In Development sem fram fer 10.-11. apríl á sama stað.
Jón Atli er einn handritshöfunda þáttaraðarinnar Arctic Circle sem efnisveitan Elisa Viihde mun sýna ásamt YLE, finnska ríkisútvarpinu. Þáttaröðin er í hópi sex slíkra sem kynntar verða fyrir 450 fulltrúum sjónvarpsstöðva í Cannes. Áætlað er að sýningar hefjist um næstu áramót. Fjallað er um málið á vef Norræna sjóðsins.
Þáttaröðin Violator er komin skemmra í vinnslu og verður kynnt á In Development ásamt 11 öðrum slíkum eins og fram kemur í tilkynningu frá MIPTV. Jón Atli skrifar þetta verk ásamt Ragnari Jónassyni, en nánar er sagt frá verkefninu hér.