Viðhorf | Ögn um aðsókn og væntingar

Frétt í Cineuropa um aðsókn á franskar bíómyndir í Frakklandi á síðasta ári vakti athygli mína. Í fréttinni er því slegið upp að 16 franskar myndir hafi fengið meira en milljón áhorfendur hver. Hollywood Reporter lætur einnig mikið með þetta og segir Frakka í góðum málum. En það skrýtna er að sambærileg aðsókn hér þætti ekkert til að hrópa húrra fyrir.

Reyndar er vakin athygli á því í fréttinni að Fransmenn hafi séð betri tíð almennt og að markaðurinn verði sífellt snúnari.

It must also be noted that the large number of films being screened each week at cinemas has led to an accelerated rotation, which has ultimately negatively affected films that tend to get off to a slow start. The gap between success and failure is now extremely evident, and figures that were once considered to be average are now considered a success given the brutality of the market. Some good quality films have also struggled to find the right combination of outputs to live up to their potential, as both distributors and operators are seeking to minimise the elevated risks of underperformance.

Jájá, ég veit – það er hæpið að bera saman Frakkland og Ísland. Frakkar eru 65 milljónir, við 340 þúsund.

En bíðum aðeins við. Frakkar og Íslendingar eiga ýmislegt sameiginlegt þegar kemur að kvikmyndaneyslu. Þeir fara rúmlega þrisvar í bíó á ári – við 4,5 sinnum. Áhugi beggja þjóða á eigin myndum er mikill og hefur verið það lengi.

Er samanburður svo mikið útí hött þegar um er að ræða að varpa ljósi á áhuga almennings á Íslandi gagnvart því sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn bjóða uppá?

Sambærileg aðsókn á Íslandi væri semsagt rúmlega fimm þúsund manns á mynd. Flestir íslenskir framleiðendur myndu láta sér fátt um finnast við slíkar aðstæður, þetta er aðeins um helmingur af meðalaðsókn á íslenskar myndir á þessum áratug.

Frakkar eiga einstaka kvikmyndamenningu og áhugi almennings þar er mikill á frönskum myndum. Þær voru á síðasta ári með 37,5% markaðshlutdeild (hefur dregist saman, fyrir nokkrum árum var hún nær 50% – hér sveiflast markaðshlutdeildin á milli 3-10%). Bandarískar myndir eru með um 50% markaðshlutdeild í Frakklandi, hér oftast milli 85-90%.

Vinsælasta franska myndin á síðasta ári, hasarmyndin RAID Dingue, fékk fjóra og hálfa milljón gesta. Sambærileg aðsókn hér er um 23 þúsund manns, sem er á pari við Hjartastein, þriðju vinsælustu íslensku mynd síðasta árs. Ég man þig, vinsælasta íslenska myndin, fékk rúmlega 47 þúsund gesti. Sambærileg aðsókn í Frakklandi væri yfir níu milljón manns.

Við erum því í öllum meginatriðum að standa okkur ágætlega. Og kannski má alveg prófa að vera sáttur við nokkur þúsund gesti í sumum tilfellum. Það er óraunhæft að ætlast til þess að allar myndir njóti mikilla vinsælda. Lifi fjölbreytnin.

Listi FRÍSK yfir aðsókn á íslenskar myndir síðasta árs birtist á næstu dögum.

Sjá nánar hér: A total of 16 French films obtain more than one million admissions in 2017

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR