Blindrahundur er ný heimildamynd um myndlistarmanninn Birgir Andrésson. Myndin verður frumsýnd fimmtudaginn 9. nóvember. Stikla myndarinnar er komin út.
Í myndinni er ævi og ferill Birgis rakin í gegnum frásagnir samferðarfólks frá bernsku og þar til hann lést sviplega árið 2007. Handrit, stjórn og klipping er í höndum Kristjáns Loðmfjörð og framleiðandi er Tinna Guðmundsdóttir.
Blindrahundur var sýnd í byrjun júní á heimildamyndahátíðinni Skjaldborg, Patreksfirði, þar sem hún hlaut góðar viðtökur og vann bæði áhorfenda- og dómaraverðalaun. Heimildamyndin var 9 ár í framleiðslu, með hléum, og kemur út þegar 10 ár eru liðin frá fráfalli Birgis.
Myndin byggir á frásögnum fjölskyldu, vina og samstarfsmanna, hæglátu myndmáli í anda myndlistar Birgis og rödd listamannsins sjálfs. Fram koma: Andrés Gestsson, Gísli Helgason, Bjarni H. Þórarinsson, Hannes Lárusson, Helgi Þorgils Friðjónsson, Pétur Arason, Sigurður Gylfi Magnússon, Halldór Björn Runólfsson, Guðmundur Oddur Magnússon, Jón Proppé, Kristinn E. Hrafnsson, Þröstur Helgason og Steinunn Svavarsdóttir. Kristín Ómarsdóttir skáld fylgir áhorfendum að auki og fyllir ýmist í eyður eða eykur á óvissuna um listaverk Birgis sem eru full af leikgleði, opin og margræð í senn.
Með báða foreldra blinda ólst Birgir upp sem einkabarn við afar sérstakar aðstæður. Í fjölmennu samfélagi í húsi Blindrafélagsins var Birgir sá eini með fulla sjón og lét gjarnan hafa eftir sér að hann hafi verið augu heimilisins.
Þessi óvanalegi bakgrunnur varð kveikjan að djúpstæðum áhuga hans á sambandinu á milli tungumáls og myndmáls, hins sýnilega og ósýnilega. Uppistaðan í verkum Birgis er tungumálið í bland við hverfandi menningararf samfélags sem var, en vék þegar Ísland opnaðist fyrir umheiminum um miðbik síðustu aldar.
Í Blindrahundi er dregin upp mynd af Birgi, allt frá barnæsku fram á síðasta dag. Hann var jaðarmaður, þekktur fyrir litríkan persónuleika og fremstur meðal jafningja af sinni kynslóð á sviði íslenskrar samtímamyndlistar. Með listinni leitaðist Birgir við að varpa ljósi á hið „sérkennilega“ í íslenskri menningu og sögu. Í myndinni er aftur á móti leitast við að varpa ljósi á sérkennilegt lífshlaup Birgis og hvernig maðurinn og verkin endurspeglast hvort í öðru.
Kristján Loðmfjörð segir svo frá um myndina:
Áhugi minn á Birgi hófst þegar ég var í myndlistarnámi árið 2003, þá valdi ég Birgi og verk hans til umfjöllunar fyrir verkefni í listasögu. Áður hafði ég heillast af einstaka listaverkum en þegar ég kynntist honum í eigin persónu varð mér ljóst að eitt áhugaverðasta verkið á vinnustofu Birgis var hann sjálfur. Á bak við hvert einasta verk sem við ræddum um reyndust vera sögur sem Birgir sagði af mikilli innlifun og gáfu viðfangsefnum hans fullkomið samhengi.
Það sem aðgreinir myndlist Birgis frá samtímanum er hin sagnfræðilegi efniviður og áhugi á tungumálinu. Með texta bjó Birgir til myndir í huga áhorfandans, myndir af íslenskum menningararfi, þeirri þjóðarímynd sem fer hverfandi á tímum alþjóðavæðingarinnar. Í Blindrahundi birtist Birgir ekki í mynd, í staðin fær áhorfandi að njóta margvíslegra frásagna af honum í bland við valin myndlistarverk og ljóðrænt myndmál sem er unnið í anda hans eigin verka. Myndin af Birgi birtist í huga áhorfandans rétt eins og hin hverfandi menningararfur sem birtist okkur í hans eigin verkum.
Stiklu myndarinnar má sjá hér.