Alþjóðlega stuttmyndahátíðin Northern Wave fagnar 10 ára afmæli sínu helgina 27.-29. október næstkomandi í Frystiklefanum á Rifi. Á hátíðinni verða sýndar rúmar 70 alþjóðlegar og íslenskar stuttmyndir, íslensk tónlistarmyndbönd og blanda af íslenskum og erlendum myndbandsverkum. Edda Björgvinsdóttir leikkona og kollegi hennar Monica Lee Bellais frá Bandaríkjunum, verða heiðursgestir.
Hátíðin býður að auki upp á vinnustofu fyrir kvikmyndagerðarfólk sem er að undirbúa fyrsta verkefni sitt í fullri lengd með fyrirlestrum og ráðgjafafundum en vinnustofan er unnin í samstarfi við Wift Nordic og er haldin í Grundarfirði.
Northern Wave hefur í samstarfi við albumm.is tilnefnt 14 íslensk tónlistarmyndbönd til verðlauna og skipuleggur hátíðin nú tónleika í tengslum við myndböndin. Hér má sjá upplýsingar um tilnefnd tónlistarmyndbönd.
Leikkonan Edda Björgvinsdóttir og bandaríski kvikmyndaframleiðandinn og leikkonan Monica Lee Bellais eru heiðursgestir hátíðarinnar. Laugardaginn 28. október mun fara fram meistaraspjall með þeim stöllum þar sem þær munu ræða ýmis málefni sem við koma kvikmyndagerð, svo sem Harvey Weinstein sem Bellais hefur haft mikil kynni af og hvort Hollywood geti eitthvað lært af Íslandi og öfugt.
Bellais hefur í áraraðir starfað með þekktustu stjörnum Hollywood bæði sem leikkona (The Flintstones, The Mask, House of Cards), handritshöfundur og framleiðandi en síðasta mynd hennar sem framleiðandi, Wakefield, skartaði Brian Cranston úr Breaking Bad í aðalhlutverki. Bellais hefur mikinn áhuga á að tengjast íslenskri kvikmyndagerð og koma íslensku kvikmyndagerðarfólki á framfæri í Bandaríkjunum.
Bellais og Edda skipa að auki dómnefnd hátíðarinnar í ár ásamt handritshöfundinum Ottó Geir Borg.
Laugardagskvöldið 28.október verður haldin hin árlega fiskiréttakeppni í afmælishátíðarbúningi og boðið verður upp á afmælistertu á um daginn.