spot_imgspot_img

Kjartan Kjartansson: Hljóðsetning er falleg lygi

Kjartan Kjartansson með syninum Kolbeini Kjóa, 5 ára (Mynd: KK, einkasafn).

Kjartan Kjartansson hljóðhönnuður ræddi á dögunum við Síðdegisútvarp Rásar 2 um hljóðsetningu kvikmynda vítt og breitt. Kjartan, sem er einn sá reyndasti í sínu fagi hér á landi, segir hljóðsetningu kvikmynda vera eins og fallega lygi, eða skáldskap.

Af vef RÚV:

Kjartan Kjartansson er einn af reyndustu hljóðmönnum landsins. Hann hefur annast hljóðsetningu á mörgum af frægustu bíómyndum íslenskrar kvikmyndasögu, og eru verk á borð við Sódómu Reykjavík, Myrkrahöfðingjann og Engla Aleimsins þar á meðal. Hann segir hljóðsetningu kvikmynda vera eins og fallega lygi, eða skáldskap.

„Það sem flestir hugsa er að þetta sé bara eins og þetta er, en þetta er náttúrulega bara alltaf einhver lygi, samsett af mörgum hljóðum,“ segir Kjartan. Hann bætir því við að geislabyssuhljóðið fræga, úr Stjörnustríðsmyndunum, sé gert með því að berja hlut í langa stálvíra.

Einn árekstur –þrjátíu hljóð

„Þetta er nefnilega falleg lygi, skáldskapur.“ Hann segir að yfirleitt þurfi að bæta hljóði við hrátt myndefni af tökustað. Þannig taki hljóðmaður við efninu og bæti við hljóðum úr svokölluðum hljóðabanka. „Ég á til dæmis hljóðabanka með fullt af hljóðum, og svo á maður aldrei nóg af hljóðum.“ Hann segir að oft séu hljóðin sérstaklega unnin í hljóðveri fyrir viðkomandi verk. „Og auðvitað geta verið tugir, ef ekki hundruð hljóða sem eru stundum sett saman. Stundum eru þau bara tvö, stundum eru þau þrjátíu. Eins og bílaárekstur er hiklaust þrjátíu hljóð, en niðurstaðan er alltaf bara einn bílaárekstur – eitt hljóð,“ segir Kjartan.

Öskur Vilhjálms

Hljóðsetning kvikmynda hefur rutt sér til rúms, nánast sem sjálfstætt listform. Í poppsögunni má finna ýmsar vísanir til hljóðmynda úr öðrum miðlum. Svokallað Vilhjálms öskur [e. Wilhelm Scream] er frægt fyrirbæri í heimi hljóðsetningar, en um er að ræða gamla hljóðupptöku af öskrandi manni, sem notuð hefur verið í meira en 350 stórar kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslur. Þar má nefna Bond myndirnarStjörnustríðsmyndirnar og Indiana Jones, svo að fátt eitt sé nefnt. Hljóðbúturinn hefur sannarlega markað sér sess í poppsögunni, en breski rafpopparinn James Blake nefndi eitt af sínum frægustu lögum Wilhelm Scream, og þykir það vera vísun í þá túlkun að lagið fjalli um mann sem er í einskonar andlegu frjálsu falli. Lagið er jafnframt endurvinnsla á útgefnu rokklagi eftir föður Blake, sem einnig er starfandi tónlistarmaður.

Fótatak færir áhorfendur nær

Ekki er allt sem sýnist í heimi hljóðvinnslu, og jafnvel getur hversdagslegur hlutur eins og hreyfing leikara verið skreytt ótal hljóðum. „Hreyfing er yfirleitt gerð með hjálp manneskju sem er búin að þjálfa sig í að labba fyrir framan hljóðnema, í takt við manneskju sem viðkomandi sér á mynd, og er kallað foly.“ Hann segir hljóð á borð við fótatak geta skipt miklu máli fyrir kvikmynd, „af því að fótatak skiptir nú ekki mjög miku máli í framvindu sögunnar, en manni finnst maður vera nær persónunni fyrir vikið“.

Hljóðin sem koma í upptökunni beint frá tökustaðnum eru yfirleitt takmörkuð og afmarkast helst við talað mál frá leikurum. „Hljóðneminn er yfirleitt rétt fyrir ofan höfuðið, rétt fyrir ofan myndrammann, og þú heyrir minna í fótatakinu heldur en talinu. Og ef [maður] heyrir of mikið í fótatakinu, þá setur maður eitthvað undir skóna svo að það heyrist minna.  Af því að annars er það að skemma talið.“

Að hljóðsetja þögnina

Hljóð er einnig notað til að búa til þögn og túlka rými. „Oft þarf maður að gefa í skyn þögn með einhverju hljóði, til dæmis þegar það er svona róleg snjókoma í desembermánuði og ekkert gerist. Þá þarf maður samt að hafa eitthvað hljóð sem er kannski eins og eitthvað svona „fjúk,“ og það segir manni [að] af því að maður heyrir bara þannig hljóð þá er þögn. Ef maður heyrir þetta hljóð, þá eru ekki önnur hljóð.“

Kjartan segir hljóðmynd geta sett flæði í myndina, og ýmist bæti það við veruleikatengingu og fari síðan yfir í að verða skemmtilega stílfært, „svona eins og lýsing á innra lífi persónunnar sem þú ert að fylgjast með. Hljóð fer mjög oft úr því að vera raunveruleiki yfir í að vera í raun bara mjög skrýtið fyrirbæri, […] af því að við erum eiginlega að fara inn í höfuðið á manneskjunni sem er kannski núna stressuð eða undir áhrifum einhverra efna, eða í hættu.“ Þannig skipti það máli að hljóðin tjái eitthvað, en séu ekki eingöngu til að miðla upplýsingum um hvað sé að gerast. Sem dæmi um einskonar blekkingar í hljóðvinnslu nefnir Kjartan túlkun kvikmynda á lendingu þotu, „og svo kemur eitthvað skrens í dekkinu sem er náttúrulega algjört bull af því að það heyrist ekkert í því, í raunveruleikanum. Það er bara einhver yfirgnæfandi þota að lenda.“

Bíómyndir eru í raun og veru draumur

Oft eru bíómyndir hljóðsettar í aðstæðum þar sem hljóð væri ómögulegt. Kjartan kann útskýringu á því:„Það verður að vera hljóð, af því að bíómyndir eru í raun og veru draumur sem við upplifum, við förum inn í einhvern draum og draumurinn getur verið að gerast í New York eða í Reykjavík. Þannig að það er líf einhverrar annarar manneskju, þessvegna [sættum við okkur við] skrýtna hljóðvinnslu sem getur verið til dæmis með hljóðum úti í geimi, eða eitthvað hljómar aftur á bak og er skrýtið rugl, eitthvað. Og síðan kemur að því að við viljum að hljóðið verði aftur eðlilegt.“

„En svo kemur tónlistin og þá opnast heilinn á áhorfendum, og þetta er svo fallegt, og verður svo stórt og mikilfenglegt“

Maízenamjölið verður að fótataki í snjó

Kjartan hljóðsetti fræga mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, á Köldum klaka. „Þar er Japani sem kemur til Íslands og labbar mikið í snjó, af því að það er náttúrulega klisjan um Ísland svolítið, og fallegt. Og hann fer út í náttúruna og mig vantaði einmitt að ýkja fótatakið, og þá fann ég einhversstaðar hugmyndir frá einhverjum öðrum að gott væri að taka maizenamjöl, sem er mjög fínlegt mjöl, og inn í viskustykki, og kremja viskustykkið og það hljómar alveg eins og þurr snjór,  það er með ólíkindum, maður kremur það bara svona saman í takt við labbið.“ Hann segir niðurstöðuna verða að fullkomlega trúverðugu snjóhljóði.

Kjartan segir að skothvellir í bíómyndum séu alltaf einskonar blekking. „Það er gott dæmi um hljóð sem er alveg svakaleg þvæla. Hljóðið í byssum er mjög líkt því þegar maður bara opnar kampavínsflösku, eða eitthvað. Það kemur bara svona „púff,“ sérstaklega úr haglabyssum […] og svo bara dettur einhver niður. Það er ekki nógu alvarlegur atburður, af því að það sem gerist er að líf einhverrar manneskju var tekið. Og þessvegna þarf að yfirdramatísera sjálfan hvellinn, þannig að manni nánast bregði, og fatti alvarleikann við það að einhver deyi.“

Alvöru slagsmálahljóð eru of ógeðsleg

Slagsmál í bíómyndum eru jafnan hljóðsett eftir á, en raunveruleg slagsmálahljóð eru yfirleitt aldrei notuð. Fyrir því liggja góðar ástæður.Ef maður heyrir réttu hljóðin þá er atriðið alveg hræðilega ógeðslegt. Ég gerði einusinni svona boxatriði fyrir írska kvikmynd, 1997. Og leikstjórinn kom og ég var að sýna honum þetta og við stoppuðum eftir atriðið og hann sagði „Heyrðu, Kjartan, við verðum nú aðeins að setja inn hin hljóðin sem að Hollywood notar,“  og ég skildi strax hvað hann meinti af því að þetta var bara hræðilega ógeðslegt, þetta var bara ógeðslegasta atriði sem ég hef séð.“

Kjartan segir hljóðsetningu slagsmála með gervi-hljóðum létta áhorfendum áhorfið. „En þetta Hollywood-hljóð sem er svona klisja, eins og Wilehelm öskrið, það er eitthvað svona svipu-hljóð. Og þegar það kemur með þessu hljóði, þá er einhvernveginn eins og maður upplifi sem áhorfandi „já þetta er nú afsakað sem högg“, það er ekki verið drepa einhvern. Það er eins og það komi eitthvað grín-element.“

Stutt hljóð eru vond

„Svo er lenging á hljóðum, eins og svipan gerir, það er þægilegra fyrir okkur, heldur en stutt hljóð. Öll stutt hljóð eru vond. Eins og ef einhver skyndilega öskrar og hefur enga innistæðu fyrir því,  okkur finnst það lélegur leikur. En ef einhver lemur kannski í borðið fyrst […], þá skilur maður það frekar en ef einhver fer allt í einu að rífa einhvern mikinn kjaft. Það er betra að fá lengingu á dramatíska hluti.“

Kjartan Kjartansson hljóðmaður var gestur Síðdegisútvarps Rásar 2 þann 3. júlí sl.

Sjá nánar hér: Alvöru slagsmálahljóð þóttu of ógeðsleg | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR