Truenorth hefur tryggt sér réttinn að sjónvarpsþáttum eftir bókum glæpasagnarithöfundarins Stefáns Mána, sem fjalla um lögreglumanninn Hörð Grímsson. Til stendur að framleiða fleiri en eina seríu og hefjast tökur á næsta eða þarnæsta ári. Fréttatíminn skýrir frá.
Þar segir ennfremur:
Kristinn segist strax finna fyrir miklum áhuga á þáttunum erlendis frá, enda hafi íslenskt sjónvarpsefni verið að sanna sig á erlendum markaði síðustu árin. En það auðveldar fjármögnunina. „Það er gríðarlegur áhugi hjá nokkrum aðilum erlendis á Stefáni Mána og hans verkum. Við höfum talað við franska, breska og þýska aðila með þessa seríu.“
Kristinn hitti einmitt þýskan framleiðanda um daginn og spurði hvort betra væri að gera þættina á ensku eða öðru tungmáli. Svarið kom honum á óvart.
„Hann sagði strax að við ættum að gera þetta á íslensku. Íslenskan selur, sérstaklega eftir Ófærð. Íslenskan er fullkomlega gjaldgeng núna. Ég hef aldrei heyrt þetta áður þegar kemur að íslenskunni og við kannski hjálpum bara til við að vernda tungumálið og breiða það út sem víðast.“
Sjá nánar hér: Íslenskan heitasta tungumálið | Fréttatíminn