Guðmundur Bergkvist frumsýndi heimildamynd sína Fjallkóngar þann 12. janúar s.l. og hefur myndin verið sýnd bæði í Reykjavík og víða um land. Um 2.000 manns hafa nú séð myndina að sögn Guðmundar, sem telst mjög gott fyrir heimildamynd.
Morgunblaðið fjallaði um myndina við útkomu og þar kemur meðal annars eftirfarandi fram:
Guðmundur Bergkvist segist hafa orðið alveg heillaður af sauðfjárbændum í Skaftártungu sem hann fékk að fara með í nokkrar fjallferðir í stórbrotinni náttúrufegurð. Hann frumsýnir á morgun heimildarmynd sína, Fjallkóngar, sem er fyrst og fremst mynd um fólk, en ekki kindur. Guðmundur segir fólk hafa tekið góðan tíma í að hleypa honum að sér. Hann var fimm ár að vinna að myndinni.
Það er eitthvað þarna austurfrá sem togar mig alltaf aftur þangað. Ég fór á hverju ári að veiða í Tungufljótinu og ég sæki mikið á þetta svæði, samt er ég ekki tengdur því neinum fjölskylduböndum og var ekki í sveit þar sem ungur drengur. Mín fyrstu kynni af fólkinu í Skaftártungu voru í gegnum störf mín sem tökumaður hjá Rúv, þegar ég var sendur austur til að mynda og taka viðtal við Dóra fjallkóng. Hann er reglulega í fréttunum þegar Skaftárhlaupin koma, því jörðin hans Ytri-Ásar liggur nálægt Skaftá og Eldvatni. Ég fékk hugmyndina að myndinni minni einmitt út frá kynnum mínum af Dóra, sem er stórkostlegur persónuleiki. Mér fannst þessi veröld öll svo spennandi og fólkið sem tilheyrir henni,“ segir Guðmundur Bergkvist kvikmyndagerðarmaður sem frumsýnir heimildarmynd sína, Fjallkóngar, á morgun, fimmtudag. Hún fjallar um sauðfjárbændur í Skaftártungu og þar er fylgst með lífi þeirra á nokkurra ára tímabili.
„Það stóð ekki til í upphafi að taka fimm ár í að gera myndina, en ég fór þrisvar á fjall með þessu fólki og þar fyrir utan myndaði ég það við störf sín á öllum árstímum. Fókusinn í myndinni er vissulega á fjallferðir, af því að afrétturinn er það sem sameinar þetta fólk. Þau eru öll í sauðfjárrækt og til að geta verið í því af alvöru þá verður fólk að hafa afrétt til að reka féð á yfir sumarið. Og þá verður fólk líka að sameinast um afréttinn og standa saman í fjárleitum, þó að allt logi kannski í illdeilum undir niðri,“ segir Guðmundur og hlær.
„Það mátti litlu muna að ég dræpi mig“
Guðmundur segir að hann hafi eignast marga góða vini í fólkinu sem er í myndinni hans.
„Ég varð alveg heillaður af þessu öllu saman, að fara með þeim á fjall og kynnast þeim öllum svona vel. Nú fer ég á þorrablótin í sveitinni og hvað eina,“ segir hann og hlær alsæll.
„Þetta var mikil langferð hjá mér, þessi fimm ár, og rosalega erfitt á köflum, ég lenti í öllum andskotanum. Ég lenti tvisvar í brjáluðu veðri, í annað skiptið var það mannskaðaveður, þá fórst erlendur ferðamaður nokkra kílómetra frá þar sem við vorum. Ég fauk út af á fjórhjólinu og mátti litlu muna að ég dræpi mig. Ég kom þarna í upphafi tökuferlisins í fjárskaðaveðrinu haustið 2012, þá var brjálæðislega hvasst og ég var á byrjunarreit í kynnum mínum af þessu fólki. Menn voru ekkert alveg á því að hleypa mér að sér, enda ekki sjálfgefið að fólk geri það strax. Það tók talsverðan tíma.“
Sjá nánar hér: „Þetta er magnað og harðduglegt fólk“ – mbl.is