Kvikmyndin Hjartasteinn í leikstjórn Guðmundar Arnars Guðmundssonar var ótvíræður sigurvegari Eddunnar 2017 þegar verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Hótel Hilton Reykjavík Nordica fyrr í kvöld og sjónvarpað beint, í opinni dagskrá á RÚV.
Morgunblaðið skýrir frá:
Hjartasteinn hlaut alls níu Eddur, en hafði verið tilnefnd til sextán. Hún var verðlaunuð sem mynd ársins, fyrir kvikmyndatöku, klippingu, leikmynd og búninga auk þess sem Guðmundur var verðlaunaður fyrir bæði leikstjórn sína og handrit. Blær Hinriksson og Nína Dögg Filippusdóttir voru verðlaunuð fyrir leik sinn í myndinni, hann fyrir leik í aðalhlutverki og hún í aukahlutverki.
„Ég átti ekki von á þessu, en auðvitað þykir mér vænt um þetta,“ segir Gunnar H. Baldursson leikmyndahönnuður sem er nýjasti heiðursverðlaunahafi Eddunnar. Gunnar útskrifaðist úr auglýsingadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1971 og hóf sama ár störf hjá leikmyndadeild Sjónvarpsins. Fyrstu árin vann hann hin ýmsu störf deildarinnar en lengst af sem leikmyndahönnuður og um árabil var hann deildarstjóri. Gunnar hefur unnið jöfnum höndum við leikmyndir fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti.
Mikilvægt að hlúa að grunninum
„Það skemmtilegasta sem ég geri er að búa til barnaefni,“ sagði Ævar Þór Benediktsson þegar hann tók við verðlaunum fyrir besta barna- og unglingaefni. Hann sagði það mikla ábyrgð að búa til barnaefni og því þyrfti að koma fram við barnamenningu af virðingu.
Hann skoraði á stjórnvöld og fjölmiðla að gera barnamenningu hærra undir höfði. „Það er ekki skrýtið ef húsið hrynur ef það er ekki lögð alúð við grunninn. Þetta er ekki flókið,“ sagði Ævar. Hann jafnframt þakkaði Gunna og Felix fyrir þeirra mikilvæga framlag til barnamenningar og vísaði til sjónvarpsþátta þeirra. Verðlaunin tileinkaði hann afa sínum og nafna.
„Við tökum þá bara Edduna.“ Þetta sögðu liðsmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu þegar hallaði undan fæti á EM í sumar, að sögn Sævars Guðmundssonar leikstjóra heimildarmyndar ársins Jökullinn logar, þegar hann tók við verðlaununum.
Hilmar Oddsson tók við verðlaununum fyrir hönd dóttur sinnar, Heru Hilmarsdóttur, sem var valin leikkona ársins í aðalhlutverki.
Kvikmynd ársins
Hjartasteinn – framleidd af Join Motion Pictures
Leikstjórn ársins
Guðmundur Arnar Guðmundsson fyrir Hjartastein
Handrit ársins
Guðmundur Arnar Guðmundsson fyrir Hjartastein
Leikari ársins í aðalhlutverki
Blær Hinriksson fyrir Hjartastein
Leikkona ársins í aðalhlutverki
Hera Hilmarsdóttir fyrir Eiðinn
Leikari ársins í aukahlutverki
Gísli Örn Garðarsson fyrir Eiðinn
Leikkona ársins í aukahlutverki
Nína Dögg Filippusdóttir fyrir Hjartastein
Heimildarmynd ársins
Jökullinn logar – framleidd af Purkur og Klipp Productions
Stuttmynd ársins
Ungar – framleidd af Askja Films
Sjónvarpsmaður ársins
Helgi Seljan í Kastljósi
Skemmtiþáttur ársins
Orðbragð – framleiddur af RÚV
Menningarþáttur ársins
Með okkar augum – framleiddur af Sagafilm
Frétta- eða viðtalsþáttur ársins
Leitin að upprunanum – framleiddur af Stöð 2
Barna- og unglingaefni ársins
Ævar vísindamaður – framleitt af RÚV
Lífsstílsþáttur ársins
Rætur – framleiddur af RÚV
Leikið sjónvarpsefni ársins
Ligeglad – framleitt af Filmus
Sjónvarpsefni ársins
Ófærð
Tónlist ársins
Hildur Guðnadóttir fyrir Eiðinn
Hljóð ársins
Huldar Freyr Arnarson fyrir Eiðinn
Leikmynd ársins
Hulda Helgadóttir fyrir Hjartastein
Búningar ársins
Helga Rós V. Hannam fyrir Hjartastein
Kvikmyndataka ársins
Sturla Brandth Grøvlen fyrir Hjartastein
Gervi ársins
Ragna Fossberg og Heimir Sverrisson fyrir Eiðinn
Klipping ársins
Anne Østerud og Janus Billeskov Jansen fyrir Hjartastein
Brellur ársins
Pétur Karlsson og Daði Einarsson fyrir Eiðinn
Heiðursverðlaun
Gunnar H. Baldursson