spot_img

Starafugl um „Rúntinn 1“: Sjálfsörugg og keik

Snorri Páll skrifar á Starafugl um heimildamyndina Rúntinn 1 eftir Steingrím Dúa Másson og segir hana standa fyllilega í lappirnar ein og sér – sjálfsörugga og keika.

Snorri Páll segir m.a.:

Atriði myndarinnar voru fest á filmu á Akranesi og Blönduósi og í Keflavík tæpu korteri fyrir (órana um) 2000-vandann — nánar tiltekið sumarið 1999 — sem eftir á að hyggja er vafalaust sögulegri tímasetning en ætla má að höfundurinn hafi gert sér grein fyrir meðan á tökunum stóð: þetta er stuttu áður en margsjónvarpað fall tvíburaturnanna hringdi inn 21. öldina, um það leyti sem „íslenska efnahagsundrið“ fór að taka á sig (ó)efnilega mynd í takt við útflutningsvæðingu íslenskrar tónlistar, á tíma þar sem ekki var óeðlilegt að segjast ætla að „fara á netið,“ forskeytið far- stóð enn þungt og óhaggað fyrir framan snúrulausa síma, og símboðar voru enn festir á krakka sem af einhverjum ástæðum þóttu þurfa að vera ínáanlegir allan sólarhringinn. Í aldamótunum 1999-2000 fólust ekki síst síðustu dreggjar hinna ungu og stuttlifuðu endaloka sögunnar — og kvikmynd Steingríms Dúa, sem kemur nú út tæpum tveimur áratugum síðar, er líkust sýni eða sönnunargagni, einskonar leifturljósi að handan, innrömmuðu augnabliki hvers framtíðarverðmæti lá kannski allra síst í augum uppi þegar innrömmunin sjálf átti sér stað. Sautján ár eru ekki langur tími, en sökum þeirra gífurlegu tæknibreytinga sem orðið hafa í millitíðinni virka filmur Steingríms Dúa að vissu leyti sem fornleifar. Og það er ekki síst þessi furðulega fjarlæga nálægð — eða nálæga fjarlægð — sem gerir myndina svo heillandi og eftirminnilega.

Myndin, sem ku vera sú fyrsta í þríleik, kjarnast um rúntrannsóknarferðir þeirra Viðars Hákons Gíslasonar og Ólafs Jónssonar vítt og breitt um landið, en auk ofangreindra bæja heimsóttu þeir Akureyri (í áttina þangað halda þeir raunar undir lok myndarinnar, sem gefur til kynna að sú næsta komi til með að hefjast þar), Egilsstaði, Hólmavík, Ísafjörð, Höfn og Vestmannaeyjar — auk þess sem þeir tóku upp í Reykjavík. Hlutverk þeirra Viðars og Ólafs liggja einhverstraðar á mörkum hins uppdiktaða og hins raunverulega: samkvæmt kynningartexta sem Steingrímur Dúi sendi frá sér í tengslum við (mislukkaða) hópfjármögnun myndarinnar — sem þá átti reyndar að verða tíu þátta sjónvarpssería — smíðaði hann tvíeykinu ákveðinn ramma, til að mynda hvað varðaði fatnað (engin tískuföt) og áhugamál (bílar, rúnturinn o.s.frv.). Hér er þó ekki um hefðbundinn leik að ræða, heldur er staða þeirra skyldari stöðu tónlistarmanns sem spinnur út frá fyrirframgefnum hljómagangi: út frá ákveðnum, lauslega mótuðum grunni imprófísera þeir framhaldið, frjálsir en um leið að einhverju leyti bundnir við rammann, með augu og eyru opin fyrir þeim framvindumöguleikum sem rúmast innan hljómagangsins. Engin formleg viðtöl eiga sér stað — engir talandi hausar birtast uppstilltir á skjánum — heldur ganga hinar sumpart skálduðu aðalpersónur beint inn í raunverulegar aðstæður og leita þar uppi viðmælendur sem geta ekki gert ráð fyrir öðru en að um raunverulega bíla- og rúntáhugamenn úr Reykjavík sé að ræða. Upptökutækin rúlla viðstöðulaust meðan á samskiptunum stendur og í stað þess að einblína á að ná „góðum“ römmum virðist sem óhamlaður hreyfanleiki myndavélarinnar sé meginmarkmiðið. Þannig er opnað upp á gátt fyrir óreiðukennda fagurfræði og organíska framvindu — hið skyndilega, óvænta og ófyrirséða ræður för.

Þetta tekst í stuttu máli afar vel.

Sjá nánar hér: Áferðin yfirbugar innihaldið

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR