Gautaborgarhátíðin, stærsta kvikmyndahátíð Norðurlanda, stendur nú yfir. Fjöldi íslenskra mynda tekur þátt í hátíðinni. Þrestir Rúnars Rúnarssonar keppir um Drekaverðlaunin fyrir leiknar myndir og The Show of Shows Benedikts Erlingssonar keppir um Drekann í flokki heimildamynda.
Þrestir er ein af 8 norrænum myndum sem keppa um Drekaverðlaunin, en verðlaunaféð er 1 milljón sænskra króna og er það ein hæsta upphæð sem hægt er að vinna til á kvikmyndahátíðum heimsins.
The Show of Shows: 100 Years of Vaudeville, Circuses and Carnivals tekur þátt í keppninni um Drekaverðlaunin fyrir bestu norrænu heimildamynd. Samtals munu 8 norrænar heimildamyndir keppa um 100.000 sænskar krónur, sem er einnig ein hæsta upphæð sem hægt er að vinna til í flokki heimildamynda á kvikmyndahátíðum heimsins.
Hrútar eftir Grím Hákonarson og Fyrir framan annað fólk í leikstjórn Óskars Jónassonar taka þátt í Nordic Light sýningarröð hátíðarinnar. Sú síðarnefnda verður einnig sýnd á Nordic Film Market ásamt Reykjavík Ásgríms Sverrissonar.
Garn í leikstjórn Unu Lorenzen og Sjóndeildarhringur eftir Berg Bernburg og Friðrik Þór Friðriksson taka þátt í heimildamyndahluta Nordic Light sýningarraðarinnar.
Regnbogapartý eftir Evu Sigurðardóttur tekur þátt í stuttmyndahluta Nordic Light sýningarraðarinnar.
Þá verða tveir fyrstu þættir sjónvarpsþáttaraðarinnar Ófærð, úr smiðju Baltasars Kormáks og Sigurjóns Kjartanssonar, sýndir sem hluti af sjónvarpsþáttahluta Nordic Light sýningarraðarinnar.