spot_img

Svartir sunnudagar sýna „The Holy Mountain“ til styrktar Jodorowsky

holy-mountain4Eitt af helstu stórvirkjum kvikmyndasögunnar, The Holy Mountain eftir chileanska leikstjórann Alejandro Jodorowsky verður sýnt í Bíó Paradís sunnudaginn 10. janúar kl. 20. Myndin verður sýnd á vegum Svartra sunnudaga og ágóði af miðasölu rennur til styrktar nýjustu kvikmyndar Jodorowskys, Endless Poetry.

Í fréttatilkynningu frá Bíó Paradís segir:

Jodorowsky, fæddur 1929 er goðsagnakenndur leikstjóri og kvikmyndin The Holy Mountain frá 1973 er án efa hans frægasta. Hún er mjög súrrealísk könnun á dulspeki hins vestræna heims og flokkast meira sem listaverk heldur en bíómynd og er uppfull af dulrænum táknum.

Jodorowsky, sem er úkraínskur gyðingur fæddur í Chile hefur gert fjölmargar myndir um ævina, meðal annars El Topo (1970) Santa Sangre (1989) og einnig er frægt að hann ætlaði að gera mynd úr vísindaskáldsögunni Dune sem síðar var leikstýrt af David Lynch. Fjallað er um gerð myndarinnar sem aldrei varð í frægri heimildarmynd sem nefnist Jodorowsky’s Dune.

Nú er leikstjórinn að verða níræður og er að gera sína síðustu kvikmynd sem nefnist Endless Poetry. Til þess að fjármagna þessa mynd hefur hann sett upp fjáröflun á IndieGogo þar sem velunnarar listrænna kvikmynda geta stutt við gerð hennar.

Hópur aðdáenda Jodoroskys hefur nú tekið sig saman með veglegum stuðningi frá Bíó Paradís til að sýna meistaraverkið The Holy Mountain á sunnudaginn sem hluta af kvikmyndaröðinni Svartir sunnudagar. Svartir sunnudagar eru bíókvöld með þemanu költ og klassískar myndir í Bíó Paradís undir listrænni stjórn Hugleiks Dagssonar, Sigurjóns Kjartanssonar og Sjóns.

Ágóði af aðgangseyri að myndinni rennur í fjármögnun nýjustu myndar Jodorowskys. Leikstjórinn hefur sjálfur lagt blessun sína yfir sýninguna og er Íslendingum þakklátur fyrir framlag sitt til kvikmyndalistarinnar.

holy mountain hið helga fellThe Holy Mountain verður sýnd í tveimur sölum samtímis nú á sunnudaginn kl. 20 en búast má við mikilli aðsókn kvikmyndaunnenda á þessum einstaka viðburði og mælt með að tryggja sér miða tímanlega.

Plakatið við viðburðinn er teikning eftir myndlistarmanninn Pál Banine og Guðmund Odd Magnússon (Godd) sem gerði letrið.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR