Litlar breytingar eru á aðsóknarlistanum þessa vikuna. Þrestir Rúnars Rúnarssonar er áfram í tíunda sæti eftir þriðju sýningarhelgi og Everest Baltasars áfram í því þriðja.
2,771 sáu Everest í vikunni og hefur þá myndin fengið alls 64,560 gesti. Heildartekjur myndarinnar á heimsvísu nema nú tæpum 177 milljónum dollara.
Aðsókn á Þresti Rúnars Rúnarssonar nam 576 manns í vikunni. Heildaraðsókn er 3,021 gestir eftir þriðju sýningarhelgi.
Heimildamyndin Hvað er svona merkilegt við það? eftir Höllu Kristínu Einarsdóttur er í 23. sæti en 197 manns sáu hana í vikunni. Heildaraðsókn nemur 475 manns.
Heimildamyndin Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum eftir Ölmu Ómarsdóttur er í 21. sæti eftir fjórðu sýningarhelgi. 299 sáu hana í vikunni en alls hefur hún fengið 2,650 gesti. Hún er því aðsóknarhæsta heimildamyndin á árinu og með stærri heimildamyndum aðsóknarlega séð hin síðari ár.
Heimildamyndin Jóhanna – síðasta orrustan eftir Björn B. Björnsson fékk 69 manns í vikunni en alls hafa 470 séð hana eftir þrjár sýningarhelgar.
Hrútar og Fúsi eru enn í sýningum; sú fyrrnefnda er komin með 21,175 gesti, sú síðarnefnda með 12,902 og tók smá kipp í vikunni uppávið í kjölfar Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs.
Aðsókn á íslenskar myndir 26. október til 2. nóvember 2015
VIKUR | MYND | AÐSÓKN | HEILDARAÐSÓKN |
---|---|---|---|
7 | Everest | 2,771 | 64,560 |
3 | Þrestir | 576 | 3,021 |
4 | Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum | 299 | 2,650 |
2 | Hvað er svona merkilegt við það? | 197 | 475 |
23 | Hrútar | 153 | 21,175 |
3 | Jóhanna - síðasta orrustan | 69 | 470 |
32 | Fúsi | Ekki vitað | 12,902 |