Gamanmyndin Comeback eftir handriti Hallgríms Helgasonar verður frumsýnd í dönskum kvikmyndahúsum á morgun. Stiklan er hér.
Leikstjóri er Natasha Arthy, sem einnig er skrifuð fyrir handritinu ásamt Jacob Tingleff. Með aðalhlutverkið fer hinn kunni leikari Anders W. Berthelsen (Superclasico, Kongekabale, Italiensk for begyndere).
Söguþráðurinn er á þessa leið:
Uppistandarinn Thomas hefur klúðrað ferli sínum og er til í að gera allt til að komast aftur á toppinn. Honum býðst að hita upp hjá vini sínum Fred sem nýtur velgengni, en þá dúkkar unglingsdóttir hans skyndilega upp. Hana hefur Thomas ekki séð lengi. Dóttirinn er óvenju kjaftfor og snýr lífi hans á hvolf og reynir hvað hún getur að rústa draumum hans. Thomas veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið og stefnir hraðbyri fram af brúninni. Aðeins Fred vinur hans getur komið honum til bjargar.