„Ófærð“ fær 75 milljónir frá Creative Europe

Ólafur Darri Ólafsson fer með aðalhlutverk í sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð.
Ólafur Darri Ólafsson fer með aðalhlutverk í sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð.

Sjónvarpsþáttaröðin Ófærð fékk 75 milljónir króna frá Creative Europe, kvikmynda- og sjónvarpsáætlun ESB, sem á dögunum úthlutaði alls um 700 milljónum króna. Annað íslenskt verkefni, heimildamyndin Garn í stjórn Unu Lorenzen fékk sjö milljónir króna og því rann alls 12% úthlutunarinnar til íslenskra verkefna. Svo hátt hlutfall hefur aldrei áður farið til neins aðildarlands í einni úthlutun.

Kvikmyndafyrirtækið Sögn ehf., í eigu Baltasar Kormáks, fékk úthlutað 500 þúsund evrum, um 75 milljónum króna vegna Ófærðar. Verkefnið er eitt fimm verkefna sem fékk styrk að þessari upphæð í ár. Styrkurinn sem Sögn fékk er langstærsti styrkur sem íslenskt verkefni hefur fengið úr áætluninni frá því að hún var stofnsett árið 1992.

Framleiðslukostnaður verkefnisins nemur rúmum milljarði en meðal þeirra sem leggja fé til framleiðslunnar eru Kvikmyndamiðstöð Íslands, RÚV, DR í Danmörku og ZDF í Þýskalandi. Þá hefur sýningarréttur þáttaraðarinnar verið seldur víða um lönd og verða þeir meðal annars sýndir á BBC. Þættirnir hefja göngu sína á RÚV um jólin.

Heimildamyndin Garn er í stjórn Unu Lorenzen og framleidd af Heather Millard og Þórði Braga Jónssyni hjá Compass Films. Í myndinni tvinnast saman list og aðgerðastefna sem berst frá Íslandi til Evrópu. Það er í tísku að prjóna og hekla. Þetta er ekki lengur áhugamál sem fólk stundar í frítíma sínum heldur er þessari handavinnu einnig sinnt af körlum og kvikmyndastjörnum og nýtt í þágu listarinnar. Í myndinni fylgjumst við með ferðalagi þriggja aðalpersóna en sögur þeirra fléttast og tengjast  í gegnum myndina. Samnefnarinn er hrifning þeirra á garni og sköpunargáfa.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR