Dögg Mósesdóttir: „Hlutirnir lagast því miður ekki af sjálfu sér“

Dögg Mósesdóttir kvikmyndaleikstjóri og formaður WIFT á Íslandi.
Dögg Mósesdóttir kvikmyndaleikstjóri og formaður WIFT á Íslandi.

Samantekt Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, sem birt var á dögunum, sýndi að á undanförnum árum hefur hærra hlutfall kvenna fengið styrki úr Kvikmyndasjóði en hlutfall karla. Ritstjóri Klapptrés leitaði álits Daggar Mósesdóttur formanns WIFT á niðurstöðum þessarar samantektar og spurði jafnframt hvar WIFT teldi helst kreppa skóinn þegar kemur að styrkveitingum til kvenna.

DÖGG: Við hjá Wift höfum á síðustu árum skoðað þessar tölur og verið meðvitaðar um þær eins og sjá má í grein sem við birtum fyrst árið 2011 á vefnum okkar Wift.is. Við vildum benda á þetta í von um að framleiðendur myndu sjá að líkurnar eru frekar með þeim, gagnvart sjóðnum, ef þeir veðja á verkefni kvenna. Við fögnum því að fleiri séu að benda á þetta og vonum að það verði til þess að fleiri verkefni kvenna líti dagsins ljós.

Ég vil þó benda á að það er erfitt að segja til um hvort líkurnar séu með konum þegar að kemur stærstu styrkjunum sem eru framleiðslustyrkir fyrir kvikmyndir í fullri lengd. Árið 2012 sóttu t.a.m. 7 konur um framleiðslustyrk og 6 karlar en engin kona fékk styrk en 3 karlar. Árið 2010 voru aðeins þrjár konur sem sóttu um og engin fékk, árið 2009 var ein kona sem sótti um og fékk framleiðslustyrk. Skekkjan kemur oft ekki í ljós fyrr en farið er að rýna í upphæðirnar. Hversu mikið verkefni kvenna eru að fá versus verkefni karla fyrir sambærileg verkefni.

Við þurfum augljóslega að rýna vel í þessar tölur og mikil þörf á að gera ítarlega úttekt á úthlutunum Kvikmyndasjóðs frá upphafi. Kvennasamtökin Cima á Spáni komust t.a.m. að því að konur voru að fá einn þriðja af þeim upphæðum sem karlar voru að fá í framleiðslustyrki fyrir kvikmyndir í fullri lengd, í úttekt sem þær gerðu á þessu ári. Að mínu mati hefði verið markvissara ef sjóðurinn hefði verið með yfirlýsta og markvissa jafnréttisstefnu til nokkura ára, sem að bransinn hefði getað aðlagað sig að strax í stað þess að þurfa að leggja saman tvo og tvo til að draga þá ályktun, nokkrum árum seinna, að líkurnar séu mögulega frekar með verkefnum kvenna en karla.

Ef svo hefði verið væri staðan jafnvel önnur í dag og hlutföllin jafnari. Sem dæmi hefur sænski sjóðurinn verið með yfirlýsta jafnréttisstefnu og markmið til margra ára um að ná jöfnum kynjahlutföllum við úthlutun styrkja sem hefur nú náðst.

Hlutirnir lagast því miður ekki af sjálfu sér, það er a.m.k. mjög hægvirk leið til framfara. Það er mikilvægt að allir viðurkenni vandann og að það sé vilji til að breyta honum, það er fyrsta skrefið. Mér finnst það vanta hér. Fólk virðist ekki átta sig á af hverju það er mikilvægt að raddir kvenna heyrist.

Blasir ekki við að vandamálið felst í því hve fáar konur sækja um, frekar en að þær sæti mismunun þegar kemur að úthlutunum?

DÖGG:  Það mættu sannarlega fleiri konur sækja um, það er eitthvað sem við viljum sjá og erum að reyna að breyta.  Ég geri ráð fyrir að þú sért að vitna í risavaxna borðann á Tollhúsinu, þar sem er fullyrt að Kvikmyndasjóður mismuni konum. Það er kannski rétt að taka fram að borðinn er ekki á minni ábyrgð eða Wift, heldur er þetta hluti af Listahátíð og fyrirlestri Guerilla Girls.

Reyndar var ég ekki að spá í Guerilla Girls heldur vísa almennt til gagnrýni t.d. WIFT varðandi ójafna skiptingu styrkveitinga milli kynja. En hvernig má fá fleiri konur til að sækja um?

DÖGG: Hlutirnir lagast því miður ekki af sjálfu sér, það er a.m.k. mjög hægvirk leið til framfara. Það er mikilvægt að allir viðurkenni vandann og að það sé vilji til að breyta honum, það er fyrsta skrefið. Mér finnst það vanta hér. Fólk virðist ekki átta sig á af hverju það er mikilvægt að raddir kvenna heyrist.

Vandamálið byrjar mjög snemma, eins og skýrsla Menntamálaráðuneytisins „Úttekt á félagslífi í framhaldsskólanna“hefur leitt í ljós þar sem fjallað er um myndbandafélög menntaskólanna. Þar er stúlkur  í miklum minnihluta, þær eru í mörgum tilvikum fældar frá ef þær reyna að fá inngöngu og myndböndin ganga mikið út á hlutgervingu stúlkna. Við hjá Wift höfum verið með stuttmyndanámskeið fyrir stúlkur þar markmiðið er að hvetja táningsstúlkur áfram og erum að skipuleggja námskeið í ágúst fyrir stúlkur frá aldrinum 11-16 ára.

Vissulega þarf að fjölga kvenkyns umsækjendum en nú er greinilegt að það er eftirspurn eftir verkum kvenna, bransinn þarf bara að bregðast við því.

Hvernig sérð þú fyrir þér að þetta gæti virkað í praxís ef kríterían hjá Kvikmyndasjóði væri jöfn skipting styrkja eftir kyni frekar en einhverskonar gæðamat verkefna, er þá ekki hætta á að styrkhafar lendi í vandræðum þegar klára þarf aðra fjármögnun og aðrir fjármagnendur eru ekki að hugsa um kynjahlutföll?

DÖGG: Ég er ekki að tala um að það eigi að jafna hlutföllin á einu bretti.  Þetta er langtíma verkefni. Svo er annað mál með gæðin og út frá hverjum gæðin eru metin. Sænska Wift gaf út heila fræðigrein um það svo að umræðan um gæðamatið er nú kapítuli út af fyrir sig

Það er mjög algengt í umræðunni að nota rökin um að það séu gæðin sem skipti mestu máli en ekki kyn.  Auðvitað væri það eðlilegast en getur verið að gæðin séu metin út frá karllægu sjónarhorni því við erum vön að sjá heiminn með þeirra augum í sjónvarpi og kvikmyndum.

Sænski sjóðurinn fór þá leið að gefa konum jafnvel hærri styrki af því að þær ættu erfiðara með að fjármagna myndir sínar erlendis, við getum farið þá leið.

Eftir sem áður er verið að breyta kríteríunni úr „gæðamati“ (karllægu eða ekki eftir atvikum) í kynjakvóta. Hvernig telur þú að hægt verði að tækla þetta gagnvart öðrum fjármagnendum, t.d. erlendum sjóðum, samframleiðendum ofl. ef kynjasjónarmiðið er ekki hluti af þeirra kríteríu?

DÖGG: Það er nú ekki hægt að fullyrða að allar þær myndir sem hafa verið framleiddar hér á landi eftir karla hafi verið „gæðamyndir“ en samt hafa þær flestar fengið erlenda styrki. Sænski sjóðurinn fór þá leið að gefa konum jafnvel hærri styrki af því að þær ættu erfiðara með að fjármagna myndir sínar erlendis, við getum farið þá leið. Annars er mikil vakning í gangi um allan heim um laka stöðu kvenna í greininni svo að ég held að flestir erlendir sjóðir séu mjög meðvitaðir um stöðuna og fagni verkefnum kvenna þótt þeir séu kannski ekki með kynjakvóta eða jafnréttisáætlun.  Þessi vakning gerðist þó ekki að sjálfum sér og þar er mikil vinna að baki.

Ég held að engum detti í hug að halda því fram að “allar þær myndir sem hafa verið framleiddar hér á landi eftir karla hafi verið „gæðamyndir“”. Engu að síður byggist afgreiðsla umsókna á einhverskonar gæðamati, óháð því hvort maður sé sammála niðurstöðunni – og hvað þá útkomunni, ekki satt?

DÖGG: Ég var mjög lengi að átta mig á því eftir hvaða „reglum“ kvikmyndasjóður starfar og eftir því sem ég get best séð virðist mestu máli skipta að sjóðurinn treysti umsækjendum frekar en „gæði“ verkefnisins. Þetta traust virðist byggja á reynslu einstaklinga eða „track record“. Þær konur sem eru að gera sínar fyrstu myndir í fullri lengd þurfa þess vegna að njóta stuðnings reynslumeiri einstaklinga í greininni.

Ég held að það vilji fáir fá beinharðan kynjakvóta, það væri tímabundið neyðarúrræði sem er bara hundfúlt að þurfa að ráðast í.

Fyrst að mikil vakning er í gangi um allan heim og flestir erlendir sjóðir meðvitaðir um stöðuna, hversvegna er þá þörf á kynjakvóta hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands, í ljósi þess að hlutirnir virðast vera að stefna í átt að auknu jafnvægi milli kynjanna. Má ekki segja að hlutirnir virðast vera að lagast af sjálfu sér án þess að lagasetningu þurfi til og að fyrst og fremst þurfi að leggja áherslu á að fjölga kvenkyns umsækjendum?

DÖGG: Ég held að það vilji fáir fá beinharðan kynjakvóta, það væri tímabundið neyðarúrræði sem er bara hundfúlt að þurfa að ráðast í.  Það er hins vegar hægt að gera það að markmiði að rétta af stöðuna til lengri tíma, eins og sænski sjóðurinn hefur gert. Sænski stefndi að jafna hlutföllin á 14 árum og ég held að þau séu við lok þess tímabils núna og eru búin að ná markmiði sínu. Það er mjög ánægjulegt ef Kvikmyndasjóður virðist vera að reyna að rétta af stöðuna þar sem líkurnar virðast vera með kvenumsækjendum en við vitum það ekki fyrir víst. Það er ekkert í reglugerðum Kvikmyndasjóðs sem segir til um það eftir minni vitund og maður upplifir þetta sem hálfgert feimnismál. Hvernig á þetta að lagast af sjálfu sér ef að engin veit að þetta hefur verið áhersla sjóðsins?

Þannig að þú kysir að sjá áætlun til ákveðins tíma frá Kvikmyndamiðstöð, líkt og sænski sjóðurinn gerði?

DÖGG: Já Svíum hefur tekist þetta, fyrstum allra þjóða, með því að vera með mjög skýra jafnréttisstefnu til nokkurra ára. Þetta er greinilega leiðin sem virkar. Við hljótum að geta gert þetta líka, þ.e.a.s. ef það er vilji til þess.

Ef Kvikmyndasjóður á að taka upp jafnréttisstefnu, er þá ekki eðlilegt að krefjast þess að allir listasjóðir og jafnvel tækni- og rannsóknasjóðir ríkisins byggi þá á sömu stefnu?

DÖGG: Já, það væri mjög jákvætt. Litlar áherslur og kröfur geta líka gert heilmikið. Það ætti t.d. að vera tiltölulega auðvelt fyrir sjóðinn að krefjast þess að konur séu a.m.k. helmingur listrænna stjórnenda í kvikmyndum og reyndar held ég að flestir kvikmyndagerðarmenn ættu að gera þá kröfu til sjálfs sín, þar sem það eykur þátttöku kvenna í greininni.

Íslenska ríkið hefur nú eytt 87% af fjármagni Kvikmyndasjóðs í að gera misgóðar kvikmyndir eftir karla, má ekki nýta þetta opinbera fé í að gera misgóðar kvikmyndir eftir konur líka? Ég vil svo að lokum minna á að konur eru helmingur mannkyns ekki minnihlutahópur, það virðist oft misskiljast enda birtast þær þannig í kvikmyndum.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR