Framtíðin er á Northern Wave

Músikmyndbandagerðarfólk svarar spurningum.
Músikmyndbandagerðarfólk svarar spurningum.

Á Northern Wave International Film Festival í ár kenndi ýmissa grasa en hápunktur hátíðarinnar var líkast til mynd sem var sýnd óvænt undir lokin, og utan keppni, sem nefnist Varhundur. Þetta er stuttmynd eftir tvo 12 ára drengi, Lucas Snæ og Anton Svan (mamma þeirra er Ester Bíbí Ásgeirsdóttr sem einhverjir ættu að kannast við úr hljómsveitinni Kolrassa Krókríðandi, en hún starfar við hljóðvinnslu í kvikmyndagerð í dag og því hafa strákarnir ekki langt að sækja kvikmyndaáhugann). Varhundur er sprenghlægileg gamanhryllingsmynd um mann sem breytist stundum í hund og átök hans við þennan leiða kvilla. Þessi mynd inniheldur m.a. sálfræðinginn Dr. Freud, særingarprest sem spilar á rafmagnsgítar og hund með gleraugu. Með öðrum orðum, allt sem góð mynd þarf að hafa. Lucas og Anton eru greinilega miklum hæfileikum gæddir og framtíðin er björt hjá þeim.

Framtíðin er einmitt það sem Northern Wave hátíðin gengur út á en þar fá kvikmyndameistarar framtíðarinnar tækifæri til að sýna verk sín. Hátíðin er smám saman að festa sig í sessi en hún er haldin á Grundarfirði og var komið á fót árið 2008. Dögg Mósesdóttir er stofnandi hátíðarinnar og hátíðarstjóri. Stuttu eftir að hún kom úr kvikmyndagerðarnámi frá Spáni fékk hún þá hugmynd að lífga aðeins upp á heimabæ sinn með því að halda þar litla kvikmyndahátíð sem sérhæfði sig í stuttmyndum og tónlistarmyndböndum.

Hátíðin stendur yfir í eina helgi og kostar ekkert inn á hana og er því kærkomin afsökun fyrir alla kvikmyndaunnendur til að skella sér aðeins út á land, horfa á nokkrar stuttmyndir og kynnast öðrum kvikmyndaunnendum, fólki úr bransanum og kvikmyndagerðarfólki. Til að byrja með voru íslenskar og erlendar myndir settar í sama flokk í keppninni um bestu myndina en smám saman hefur hún stækkað og þróast og núna hefur erlendum og íslenskum myndum verið skipt upp og eru sérverðlaun fyrir hvorn flokk. Auk þess er tónlistarmyndbandakeppnin en það er hún sem skapar hátíðinni í raun mesta sérstöðu. Engin önnur hátíð á Íslandi sýnir tónlistarmyndbönd og það er yfir höfuð er ekki mikil áhersla lögð á þetta vanmetna listform á kvikmyndahátíðum.

Tónlistarmyndbandið er eitt helsta tól margra kvikmyndagerðarmanna til að æfa sig og stíga sín fyrstu skref í kvikmyndabransanum. Allt er leyfilegt í þessu formi og engar kröfur gerðar til að segja einhverja hefðbunda sögu, auk þess sem formið krefst aðeins sjónrænnar tjáningar og er því kvikmyndagerð í sínu hreinasta formi. Það er því frábært að Northern Wave skuli veita þessu formi þá virðingu sem það á skilið.

Leikstjórar íslenskra stuttmynda sátu fyrir svörum. Greinarhöfundur er þriðji frá vinstri.
Leikstjórar íslenskra stuttmynda sátu fyrir svörum. Greinarhöfundur er þriðji frá vinstri.

Það var margt áhugavert sýnt á Northern Wave í ár en það er kannski rétt að geta þess að ég leikstýrði tveimur verkum sem sýnd voru á hátíðinni, tónlistarmyndbandi og stuttmynd.

Ég náði því miður ekki að sjá allt sem sýnt var á hátíðinni en af því sem ég sá var margt gott (og annað ekki svo gott). Sigurmyndin í flokkri íslenskra mynda í þetta skiptið var Megaphone eftir Elsu Maríu Jakobsdóttur. Hún lýsir næturgamani hjá tveim ungmennum, myndin var vel að sigrinum komin og var ágætis lýsing á samskipti kynjanna og skyndikynnum. Meðal annara góðra mynda í íslenska flokknum má t.d. nefna hina bráðfyndnu Unicorn eftir Marsibil Sæmunds og hina krúttlegu Hjónabandssælu eftir Jörund Ragnars.

Í erlenda flokknum var ég hrifnastur af þýsku myndinni Beige sem var kómísk heimildamynd um áráttu eldra fólks við að ganga í “beige” (drapplituðum) fötum. Myndin gefur skemmtilega sýn á fyrirbæri sem allir kannast við en fáir hafa í raun pælt í og tekst í senn að gera grín að viðfangsefninu en um leið bera ákveðna virðingu fyrir því. Því miður missti ég af pólsku myndinni Albert eftir Daniel Wawrzyniak sem var valin besta myndin í flokki erlendra mynda. Síðan voru sérstök verðlaun gefin í flokki teiknimynda en hingað til hafa þær verið settar saman í flokk með leiknum myndum. Dómnefndin ákveð að verðlauna eina teiknimynd sérstaklega og hvatti hátíðina til að gefa verðlaunagripi fyrir teiknimyndir í framtíðinni. Myndin sem nefndin valdi var hin snjalla og sniðuga Wind eftir Robert Löbel, mynd sem lýsir samfélagi þar sem er sífelldur vindur og allir þurfa að finna sniðugar leiðir til að fást við það (t.d. með því að vera með lager af höttum í töskunni eða halda glösum á hlið þegar hellt er í þau). Af öðrum góðum myndum má nefna norsku myndina How Do You Like My Hair?, bandarísku teiknimyndina Cooped, rússnesku tilraunamyndina Hermeneutics og finnsku myndina Renewing Mikael.

Besta tónlistarmyndbandið var síðan valið af áhorfendum að þessu sinni, en sú hefð hófst í fyrra eftir að dómnefnd hafði valið besta myndbandið árin áður. Myndbandið við lagið “Tarantúlur” með Úlfur Úlfur var sigurvegarinn að þessu sinni en því var leikstýrt af Magnúsi Leifssyni. Sjálfur var ég sammála þessu vali en myndbandið var skemmtileg sýn á því sem mætti kalla íslenska “White trash” stemningu. Myndbandið má sjá hér.

En fyrir utan kvikmyndir og tónlistarmyndbönd þá er Northern Wave kannski umfram allt bara gott partí. Bæði föstudags- og laugardagskvöldið var ball á skemmtistaðnum Rú Ben, fyrra kvöldið voru plötusnúðar sem héldu uppi stemningunni en seinna kvöldið var það hljómsveitin Boogie Trouble sem tryllti lýðinn. Sem fyrr var fiskiréttakeppnin haldin en hún hefur alltaf verið hluti af hátíðinni og áhorfendur velja síðan besta réttinn sem fær vegleg verðlaun. Sigurvegari keppninnar að þessu sinni var sjálfur faðir hátíðarstjórans, Móses Geirmundsson. Fyrir þá sem vilja spara smá pening er þessi fiskiveisla fín leið til að fá sér ókeypis kvöldmáltíð.

Northern Wave er einnig góður vettvagur til að hitta kollega og þetta árið var masterklassi með Isabelle Fauvel sem starfar m.a. fyrir kvikmyndahátíðirnar í Torino og Jerúsalem sem svokallaður “talent scout”. Hún fræddi unga kvikmyndagerðarmenn um leiðir til að koma sér á framfæri og “Talent Labs” þar sem kvikmyndagerðarmenn fá að þróa og “workshoppa” verkefni sín í samvinnu við aðra kollega hvaðanæva frá í heiminum. Sjálfur fékk ég t.d. nafnspjald frá finnskum kollega sem var einnig með mynd á hátíðinni.

Það er lítið slæmt hægt að segja um þessa hátíð, ef nokkuð. Það helsta er kannski smæð Grundarfjarðar sem þýðir að lítið er um þjónustu sem maður er vanur í bænum, t.d. er allt nema barinn lokað eftir kl. 8. Meiraðsegja sundlaugin var lokuð um helgina. Þetta er svolítið óþægilegt fyrir borgarplebba eins og mig sem er vanur öllum þægindum borgarinnar. En maður sættir sig alveg við þetta enda er maður að koma á þessa hátíð til að sjá bíómyndir og skemmta sér með kvikmyndaunnendum og líka til að flýja aðeins asann í borginni.

Northern Wave hátíðin er kærkomin viðbót í íslenska kvikmyndamenningu og vonandi mun hún lifa um ókomin ár en það er líka vonandi að hún stækki ekki mikið meira, smæð hennar er að stóru leyti það sem gefur henni sinn sjarma.

Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson er mikill kvikmyndaunnandi og er með meistaragráðu í samanburðarbókmenntum. Hann stefnir á að gerast frægur kvikmyndaleikstjóri einn góðan veðurdag.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR