Síðustu 20 ár hefur Magnús Scheving verið höfundur og forstjóri Latabæjar en nú er komið að því að íþróttaálfurinn fyrrverandi taki stærsta stökkið í sögu bæjarins. Samningi Magnúsar er að ljúka og hefur hann ákveðið að endurnýja hann ekki og því afhenda keflið yfir til eiganda Latabæjar, alþjóðlegu fjölmiðlasamsteypunnar Turner Broadcasting System. Þeir vilja þó ekki sleppa honum alveg strax og Magnús mun því verða Turner áfram innan handar sem ráðgjafi og sérstakur sendiherra Latabæjar næstu 2-3 árin hið minnsta. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Latabæ.
Magnús hefur þetta að segja um málið:
„Eftir að ég fór úr búningnum þá hefur hlutverk mitt sem sendiherra fyrir heilbrigðan lífsstíl víðs vegar um heiminn aukist og eftirspurnin eftir mér sem fyrirlesara einnig og ég mun halda því áfram,“ er haft eftir Magnúsi Scheving í fréttatilkynningu. „Þá hef ég einnig hug á að snúa mér að spennandi verkefnum sem ég hef ekki komist í vegna anna síðustu 20 árin. Ég er stoltur og ánægður með að Latibær sé í höndum eins stærsta afþreyingafyrirtæki heims, Turner sem er hluti af Time Warner samsteypunni. Aðila sem hefur allt sem þarf til að láta Latabæ vaxa og dafna um ókomna framtíð. Ég er jafnframt virkilega spenntur að sjá Latabæ í Þjóðleikhúsinu og það er góð tilfinning að nýjar kynslóðir geti upplifað Latabæ á sviði alveg eins og þegar ævintýrið hófst fyrir 20 árum síðan.“
Sjá nánar hér: Magnús tekur stærsta stökkið í sögu Latabæjar – mbl.is.