Almennar sýningar á Vonarstræti hófust í gærkvöldi. Myndin hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda sem og fjölda fólks sem hafa séð myndina á forsýningum undanfarna daga. Það er vissulega ekki nóg eins og dæmin sýna (á síðasta ári fengu t.d. bæði Hross í oss og Málmhaus topp dóma en takmarkaða aðsókn, Hrossin eru þó að nálgast meðaltal síðasta áratugs), en það er greinilegt að myndin hefur meðbyr og vekur áhuga almennings. Slíkar myndir fá oft góða aðsókn, svipað var uppá teningnum með aðsóknarmestu myndir síðari ára, eins og t.d. Mýrina, Bjarnfreðarson og Svartur á leik.
Margir í bransanum bíða spenntir eftir aðsóknartölum helgarinnar, ekki aðeins aðstandendur myndarinnar. Það eru að verða hátt í tvö ár síðan íslensk kvikmynd gekk síðast vel í kvikmyndahúsum (Djúpið og Svartur á leik), það er ef miðað er við hinn háa standard og þá miklu tilætlunarsemi sem einhvernveginn virðist ríkja.
Eðlilega vill bransinn sjá vísbendingar um að þjóðin kunni að meta það sem boðið er uppá en stundum getur líka verið gott að stilla væntingum í hóf og hafa í huga stærð (smæð) íslenska markaðarins. Eins og ég benti á hér er meðalaðsókn á íslenskar myndir með ágætum þó vissulega komi stundum tímabil þar sem myndir ná ekki í gegn aðsóknarlega.
Sýningartíminn vekur einnig athygli. Venjulega eru íslenskar myndir sýndar á tímabilinu frá hausti og fram til mars-apríl, þó að undantekningar þekkist. Sumarið tilheyrir stórskrípamyndum frá Hollwood. Hinsvegar virðist markaðsherferð myndarinnar hafa tekist vel, bæði vakti stiklan sem kom í mars mikla athygli og frá frumsýningunni þann 7. maí og forsýningunum sem staðið hafa nú í vikunni hefur tekist að skapa mikið og jákvætt umtal.
Allt um það, mín tilfinning er að Vonarstræti eigi eftir að fá góða aðsókn. Hún er um fólk í aðstæðum sem við könnumst mörg við á einhvern hátt, persónurnar lifna við á tjaldinu og um sögusviðið ríkir ákveðin forvitni. Hún hefur því þetta „must see element“ og víða skírskotun til breiðs hóps.
Svo sjáum við hvað setur.