Sænsk/íslenska kvikmyndin Hemma hlaut um helgina aðalverðlaun Febiofest –Prague International Film Festival í Tékklandi. Leikstjóri myndarinnar Maximiliam Hult var viðstaddur verðlaunaafhendinguna og tók við 10.000 evra peningaverðlaunum en dreifandi myndarinnar í Tékklandi fær hluta af þeirri upphæð.
Hemma segir frá einfaranum Lou, vel gefinni ungri kona sem býr með móður sinni í stórborginni. Lou veit ekki betur en að þær eigi ekki aðra ættingja á lífi og er það því mikið áfall þegar hún fær fregnir af því að móðuramma hennar sé enn á lífi og að afi hennar sé nýlátinn. Gegn vilja móður sinnar ákveður Lou að fara í jarðarför afa síns og flytur til ömmu sinnar.
Í umsögn dómnefndar segir að þau hafi hrifist mjög af sterkri og mannlegri sögu myndarinnar, frábærum leik ásamt næmri og óborganlegri kímnigáfu.
Framleiðendur myndarinnar eru Anna G. Magnúsdóttir og Anders Granström fyrir sænska framleiðslufyrirtækið Little Big Productions. Íslenskir meðframleiðendur eru Guðrún Edda Þórhannesdóttir og Friðrik Þór Friðriksson fyrir Kvikmyndafélagið Hughrif ehf.
Tökur á myndinni fóru fram á Eyrarbakka sumarið 2012 með íslensku tökuliði en stór hluti af aðstandendum myndarinnar er íslenskur. Eftirvinnsla fór einnig öll fram hér á landi en myndin hlaut eftirvinnslustyrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Valdís Óskarsdóttir og Sigurður Eyþórsson klipptu myndina, hljóðhönnun var í höndum Kjartans Kjartanssonar og Ingvars Lundberg hjá Bíóhljóði ehf. og litgreining og samsetning var í umsjá Eggerts Baldvinssonar hjá RGB Iceland ehf.
Myndin fer í almennar sýningar hér á landi í haust. Sena dreifir.