Ísland got talent nýtur mikillar hylli en samkvæmt rafrænum áhorfsmælingum horfðu rúm 71% áskrifenda Stöðvar 2 á aldrinum 12-54 ára á fyrsta þáttinn sem sendur var út 26. janúar s.l.
Á Vísi er haft eftir Frey Einarssyni sjónvarpsstjóra Stöðvar 2 að þetta sé „langmesta áhorf sem þáttur á Stöð 2 hefur fengið frá upphafi rafrænna mælinga í markhópnum 12-54 ára. Meira en Vaktaseríurnar fengu fyrir fimm árum sem er áhorf sem margir töldu að yrði aldrei toppað. Það er auðvitað sætur sigur í sjálfu sér.“
Þrettán þættir af Ísland got talent verða sýndir, þar af eru fjórir úrslitaþættir sem verða í beinni útsendingu í vor.
Aukin áhersla á innlenda dagskrá
Áhersla Stöðvar 2 á innlenda dagskrá hefur aukist mjög í vetur. Freyr segir í því sambandi að ljóst sé að mikil eftirspurn ríki eftir íslensku efni. „Það varð sprenging í áskriftarsölunni hjá okkur í desember og það má segja að látunum hafi ekki linnt og allar símalínur í söluverinu hafi verið rauðglóandi síðustu mánuði. Stemningin í kringum Ísland Got Talent er einstök og viðbrögðin frábær, enda er þetta fjölskylduþáttur sem allar kynslóðir sameinast í kringum.“
Þátturinn er framleiddur af Rvk. Studios.
Sjá nánar hér: Vísir – Mesta áhorf frá upphafi.