Stór bresk/bandarísk sería, „Fortitude“, mynduð hér á landi eftir áramót

Frá Reyðarfirði.
Frá Reyðarfirði.

Heimildir Klapptrés herma að í undirbúningi séu tökur á bresk/bandarísku sjónvarpsseríunni Fortitude hér á landi í upphafi nýs árs. Verkefnið mun vera afar stórt í sniðum og er áætlað að tökur standi  fram í júní, en þær munu að miklu leyti fara fram á Reyðarfirði skv. heimildum Klapptrés, sem einnig herma að Pegasus muni þjónusta verkefnið hér á landi. Forráðamenn þar á bæ vildu ekkert láta hafa eftir sér um málið.

Í vor greindu ýmsir miðlar frá því að þáttaröðin væri í undirbúningi sem samstarfsverkefni bandarísku kapalstöðvarinnar Starz og hins breska Sky Atlantic. Eitt stærsta framleiðslufyrirtæki Bretlands, Tiger Aspect, mun sjá um framleiðsluna ásamt ásamt dótturfélagi þess Fifty Fathoms. Handritið er skrifað af Simon Donald (Low Winter Sun) og yfirframleiðendur eru Anne Mensah og Madonna Baptiste fyrir Sky, ásamt Patrick Spence og Simon Donald fyrir Fifty Fathoms og Tiger Aspect. Colin Callender er yfirframleiðandi fyrir Starz.

Söguþræði seríunnar er lýst svona:

Fortitude (Æðruleysi) er staður engum líkur. Staðsettur mitt í ógnvænlegri fegurð Íshafsins en um leið einn öruggasti staður á jarðríki. Ofbeldisglæpir þekkjast ekki – þar til nú.

Morðið skapar mikinn óhug í hinu litla og einangraða samfélagi þar sem samheldni er mikil og hinn hrottalegi glæpur ógnar framtíð þess.

Lögregluforinginn Dan Anderssen er yfirmaður lögreglu bæjarins. Dan stýrir jafnframt úrvals björgunarsveit en verður nú að snúa sér að rannsókn hins grimmilega morðs á breskum vísindamanni. Hann neyðist einnig til að vinna með breskum rannsóknarlögreglumanni, Milton Caldwell, sem er nýlentur í bænum. Báðir lögreglumennirnir hafa ástæður til að gruna hvorn annan um græsku eftir því sem leitinni að morðingjanum vindur fram og fjölgar á lista grunaðra.

Þegar bjartar nætur sumars víkja fyrir þrúgandi myrkri vetrar þarf hið fyrrum friðsæla bæjarfélag að takast á við ógnina sem tekið hefur sér bólfestu í hugum íbúanna.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR