Kvikmyndaspekúlantinn og framleiðandinn Greg Klymkiw skrifar lofsamlega um heimildamynd Bergs Bernburg og Friðriks Þórs, Sjóndeildarhring, sem nú er til sýnis á Toronto hátíðinni. Myndin er einnig í sýningum í Bíó Paradís.
David D'Arcy hjá Screen International fjallar um Þresti Rúnars Rúnarssonar sem nú er sýnd á Toronto hátíðinni. D'Arcy segir trausta leikstjórn og stórkostlegt umhverfi lyfta myndinni hátt yfir hefðbundnar unglingamyndir, en ólíklegt sé að myndin nái út fyrir markað listrænna mynda þrátt fyrir aukinn áhuga á íslenskum kvikmyndum.
Jordan Mintzer hjá The Hollywood Reporter fjallar um Þresti Rúnars Rúnarssonar sem sýnd er á Toronto hátíðinni. Mintzer segir myndina frekar hefðbundna sögu sem lyft sé upp af fallegu myndefni og óvenjulegu sögusviði.
Þrestir Rúnars Rúnarssonar verður heimsfrumsýnd á Toronto hátíðinni sem fram fer dagana 10.-20. september. Myndin verður í kjölfarið sýnd á San Sebastian hátíðinni á Spáni eins og áður hefur komið fram. Hrútar Gríms Hákonarsonar hefur einnig verið valin á hátíðina en báðar myndirnar verða sýndar í Contemporary World Cinema flokknum.
Sjónvarpsþáttaröðin Ófærð hefur verið valin á Primetime hluta kvikmyndahátíðarinnar í Toronto. Primetime fer fram í fyrsta skipti á hátíðinni í ár og miðar að því að gera leiknu sjónvarpsefni hátt undir höfði.
Ný heimildamynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Sjóndeildarhringur, verður heimsfrumsýnd á Toronto hátíðinni og Þrestir Rúnars Rúnarssonar á San Sebastian eins og Klapptré hefur þegar sagt frá. Fúsi, Vonarstræti og finnsk/íslenska myndin The Grump taka einnig þátt í hátíðum haustsins. Fastlega má búast við að tilkynnt verði um aðrar myndir og hátíðir innan skamms.