Hópur kvikmyndagerðarfólks birtir grein á Vísi þar sem farið er yfir það hvernig hækkun á framlögum í Kvikmyndasjóð kom til og breiðri þverpólitískri samstöðu innan fjárlaganefndar þakkað.
Meirihluti náðist í fjárlaganefnd um að leggja til að 300 milljónum króna yrði bætt í Kvikmyndasjóð á næsta ári, sem og 100 milljónum á yfirstandandi ári. Áður hafði staðið til að skera enn og aftur niður og nú um vel á annað hundrað milljónir. Kvikmyndagreinin fagnar þessu og lítur á sem gott skref í rétta átt eftir nokkurra ára stórfelldan niðurskurð.
Fyrirhuguðum niðurskurði Kvikmyndasjóðs verður afstýrt, verði breytingatillaga fjárlaganefndar samþykkt á Alþingi. Gert er ráð fyrir að 300 milljónir króna bætist í sjóðinn á næsta ári frá því sem upphaflega var lagt til. Þá er einnig gert ráð fyrir að 100 milljónir króna bætist í sjóðinn á þessu ári.
Þingmönnum hefur verið sendur undirskriftalisti og bréf þar sem þeir eru hvattir til að afstýra enn einum niðurskurði Kvikmyndasjóðs. Leikstjórar, leikarar og Óskarsverðlaunatónskáld eru meðal þeirra sem skrifa undir bréfið.
Fólkið í kvikmyndagreininni hefur á undanförnum dögum sett nöfn sín á undirskriftalista þar sem skorað er á Alþingi að afstýra enn einum niðurskurði Kvikmyndasjóðs með því að færa hluta af endurgreiðsluheimild næsta árs til Kvikmyndasjóðs. Gert er ráð fyrir að Alþingi afgreiði fjárlög í næstu viku.
Stofnaður hefur verið undirskriftalisti á Ísland.is þar sem hægt er að skrifa undir áskorun til Alþingis um að afstýra enn einum niðurskurði Kvikmyndasjóðs.
Nýkjörn stjórn Félags leikskálda og handritshöfunda (FLH) hefur sent frá sér áskorun til þingmanna um að leiðrétta hið snarasta þá varhugaverðu stefnu sem fjárveitingar til kvikmyndagerðar á Íslandi hafa tekið á síðustu misserum.
Björn B. Björnsson svarar grein Lilju Alfreðsdóttur frá í gær. Hann stendur við fyrri fullyrðingar sínar um að ráðherrann fari ekki rétt með og rekur efnisatriði lið fyrir lið.
Margrét Örnólfsdóttir handritshöfundur og fyrrum formaður Félags leikskálda og handritshöfunda (FLH) leggur út af fréttum RÚV um aðdraganda 35% endurgreiðslunnar og einnig andsvari Lilju Alfreðsdóttur við grein Björns B. Björnssonar. Margrét var meðal þeirra sem tóku þátt í vinnuhópi við mótun Kvikmyndastefnunnar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir hefur á Vísi svarað grein Björns B. Björnssonar, þar sem hann gagnrýnir hana fyrir að hafa ekki sagt satt um svokölluð Covid framlög vegna kvikmyndagerðar. Hún hafnar því alfarið.
Björn B. Björnsson kvikmyndagerðarmaður skrifar á Vísi um niðurskurð Kvikmyndasjóðs og segir meðal annars að Lilja Alfreðsdóttir hafi sett Íslandsmet í niðurskurði á Kvikmyndasjóði og fái þann vafasama heiður að teljast versti ráðherra sem greinin hefur haft frá upphafi.
Þau Hrönn Sveinsdóttir, Dögg Mósesdóttir, Karna Sigurðardóttir, Hilmar Oddsson og Gagga Jónsdóttir í stjórn Samtaka kvikmyndaleikstjóra (SKL), birta grein á Vísi í dag, þar sem þau leggja út af framkvæmd Kvikmyndastefnunnar og niðurskurði Kvikmyndasjóðs.
Óskar Jónasson leikstjóri leggur út af Pálínuboðum í samhengi við niðurskurð Kvikmyndasjóðs og segir meðal annars að við getum ekki endalaust skipulagt Pálínuboð heima hjá okkur og látið útlendingana sjá um að koma með veitingarnar.
Leikstjórarnir Dögg Mósesdóttir og Helga Rakel Rafnsdóttir birta grein á Vísi fyrir hönd stjórnar WIFT, þar sem lýst er yfir verulegum áhyggjum vegna niðurskurðar Kvikmyndasjóðs og mögulegra afleiðinga hans á stöðu jafnréttismála í kvikmyndageiranum.
Leikstjórarnir Grímur Hákonarson, Hafsteinn Gunnar Sigurðsson og Hrafnhildur Gunnarsdóttir birta nýja grein á Vísi þar sem þau gagnrýna málflutning Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra í tengslum við niðurskurð Kvikmyndasjóðs.
Samkomulag milli stjórnvalda og kvikmyndagreinarinnar um fjármögnun og umfang íslenskrar kvikmyndagerðar er forsenda viss stöðugleika í greininni. Það hefur ekki verið í gildi síðan 2019, en afar brýnt er að koma því á aftur sem fyrst.
Fyrirhuguð lög um menningarframlag streymisveita snúast um að fá streymisveiturnar til að framleiða íslenskt efni. Þær munu geta valið hvort þær fjárfesti beint eða greiði gjald. Velji þær síðari kostinn getur ráðherra heimilað þeim að sækja um beint af þessu framlagi. Ekki virðist gert ráð fyrir aðkomu sjálfstæðra framleiðenda að því fé sem kann að renna í Kvikmyndasjóð.
Rætt var við Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra í þættinum Þetta helst á Rás 1 þriðjudag 1. október. Þar var hún spurð útí niðurskurðinn á Kvikmyndasjóði og þá gagnrýni sem hann sætir.
Grímar Jónsson framleiðandi bíómyndarinnar Eldarnir, sem nú er í tökum í leikstjórn Uglu Hauksdóttur, bendir á Facebook síðu sinni á að styrkur frá Kvikmyndasjóði sé frumforsenda þess að unnt sé yfirhöfuð að sækja erlent fjármagn í íslenskar kvikmyndir.
Kvikmyndagerðarmenn eru mjög uggandi yfir stöðunni í greininni vegna mikils og stöðugs niðurskurðar Kvikmyndasjóðs, meginstoðar íslenskrar kvikmyndagerðar.
Í Kvikmyndastefnunni frá 2020 var fyrsta mál að efla Kvikmyndasjóð, meginstoð íslenskrar kvikmyndagerðar. Það byrjaði vel en nú, fjórum árum síðar, hefur hann verið skorinn hressilega niður og hefur ekki verið minni síðan niðurskurðarárið 2014. Um leið hefur endurgreiðsluhlutfall verið hækkað verulega til að auka samkeppnishæfni Íslands varðandi erlend stórverkefni. Stækkun þessarar hliðarstoðar nýtur stuðnings í greininni en gríðarlegur niðurskurður Kvikmyndasjóðs er ekki það sem Kvikmyndastefnan gengur útá.
Menningar- og viðskiptaráðuneytið segir á vefsíðu sinni að gert sé ráð fyrir að svokallað menningarframlag streymisveita muni fara að skila Kvikmyndasjóði fjármunum á árinu 2026 og er áætlað að framlagið muni skila sjóðnum 260 milljónum króna á ári.
Í nýkynntu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2025 eru áætluð framlög til Kvikmyndasjóðs 1.023,1 m.kr. Í fjárlögum ársins 2024 var framlagið 1.114,8 m.kr. Niðurskurðurinn nemur 8,2%.