spot_img

Lilja segir tal um niðurskurð ýkjur

Menningar- og viðskiptaráðherra fagnar aukningu í Kvikmyndasjóð í viðtali við Vísi en segir tal um niðurskurð ýkjur.

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra segir meðal annars í Vísi í dag:

„Hann [Kvikmyndasjóður] er ekki tómur. Nú hefur kvikmyndaiðnaðurinn vaxið og dafnað síðustu ár og hann hefur verið að skapa fjölda nýrra starfa og því var afar brýnt að styrkja Kvikmyndasjóð og við höfum verið að vinna að því með fjárlaganefndinni og geiranum síðustu mánuði og nú er verið að auka í hann og þetta er afar ánægjuleg niðurstaða.“

Kvikmyndagerðarfólk hefur jafnframt bent á að sama ár og lög um endurgreiðslur til erlendra verkefna voru samþykkt var skorið niður í veitingum til Kvikmyndasjóðs en Lilja segir mikilvægt að rugla þessu tvennu ekki saman.

„Endurgreiðslurnar hafa komið vel út og þær eru að vaxa. Það er nauðsynlegt að það sé jafnvægi á milli sjóðsins og endurgreiðslukerfisins. Eins og ég segi fjöldi nýrra starfa hafa skapast á Íslandi í tengslum við kvikmyndageirann. Samkvæmt efnahagsgreiningu sem við létum gera, hver króna sem við setjum í geirann kemur sjöfalt til baka. Það á ekki að blanda þessum kerfum saman. Þau vinna vel saman en sumir vildu gera breytingar á endurgreiðslukerfinu, ég hef varað mjög við því.“

Lilja bendir enn fremur á að ekki sé hægt að miða árin 2024 og 2025 [hér er væntanlega átt við 2021 og 2022] við síðustu ár og bendir á að þegar að kórónuveirufaraldurinn gekk yfir hafi verið ráðist í átak til að auka fjárveitingar í sjóðinn. Eru þessi ár því ekki sambærileg og ekki hægt að segja að niðurskurðurinn nemi 49 prósentum í raun eins og kvikmyndagerðarfólk vildi meina.

„Við vorum með sérstaka innspýtingu þegar að Covid var, því eins og við vitum þá voru takmarkanir varðandi ýmsa atvinnustarfsemi á þessum tíma. Við vorum með auka fjárveitingu vegna þessa. Ég held að það sé eðlilegra að miða við árið 2019. Þessi mikli niðurskurður sem hefur verið kynntur er ýktur.“

Kvikmyndasjóður 2025 miðað við 2019

Fjárheimildir Kvikmyndasjóðs árið 2019 námu 1.074 milljónum króna. Núvirt nemur það 1.468 milljónum króna.

Í fjárlagafrumvarpi 2025, sem lagt var fram í september síðastliðnum, var gert ráð fyrir rétt rúmum milljarði króna til Kvikmyndasjóðs. Nú hafa fjárlög 2025 verið samþykkt, þar á meðal tillaga fjárlaganefndar um að veita rúmum 1.323 milljónum króna til Kvikmyndasjóðs árið 2025.

Þrátt fyrir hækkun fjárlaganefndar vantar því enn um 145 milljónir króna uppá að Kvikmyndasjóður 2025 sé sambærilegur við framlög 2019.

Covid framlög?

Varðandi ummæli Lilju um að framlög fyrir árin 2021 og 2022 hafi verið Covid framlög, má benda á að þannig voru þau ekki kynnt á sínum tíma heldur sem hluti af Kvikmyndastefnu 2020-2030. Fyrir skömmu benti Lilja á tilkynningu frá ráðuneyti hennar sem kom út haustið 2020, máli sínu til stuðnings. Í þeirri tilkynningu er ekkert minnst á að framlögin séu vegna Covid, en talað um að þau séu vegna nýrrar kvikmyndastefnu. 

Fyrsti stóri niðurskurðurinn eftir framlagningu Kvikmyndastefnunnar haustið 2020 og þá miklu innspýtingu sem þá fylgdi, var boðaður haustið 2022 (fjárlagafrumvarp 2023). Hann kom kvikmyndagreininni mjög á óvart. Síðan þá hefur verið mikill niðurskurður á Kvikmyndasjóði og stóð til að halda honum áfram á næsta ári, en því hefur nú verið afstýrt af fjárlaganefnd og Alþingi.

HEIMILDVísir
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR