spot_img

Þessar myndir fengu verðlaun á RIFF 2025

Verðlaunaafhending RIFF fór fram í gærkvöldi. Eftirtaldar myndir hlutu verðlaun.

Gullna lundann hlaut kvikmyndin Strange River eftir Jaume Claret Muxart. Í umsögn dómnefndar (Mohsen Makhmalbāf, Gionna Nazzaro og Saga Garðarsdóttír) segir:

Þroskasaga myndarinnar—sem birtist í aðdráttarafli gegnum nýjar tilfinningar, en jafnframt í vígsluferð meðfram töfrandi fljóti — gerir leikstjóranum kleift að opinbera bráðþroska og fullburða hæfileika sína sem aldrei tapa sér í stílbrögðum eða formlegheitum. Uppgötvun löngunar, sem opinberun nýrrar tilveru og tilfinninga, gerir leikstjóranum kleift að semja flókna sinfóníu ósagðra en djúpt skynjaðra orða, fyrirboðar heims sem enn bíður þess að verða uppgötvaður. Af þessum ástæðum heiðrar dómnefndin með hlýju og djúpri hrifningu hæfileika Jaume Claret Muxart og hina djúpu, róttæku og byltingarkenndu fegurð kvikmyndarinnar Strange River.

Sérstaka viðurkenningu dómnefndar fékk kvikmyndin Solomamma í leikstjórn Janicke Askevold, fyrir einstaka frammistöðu leikkonunnar Lisu Loven Kongsli. Segir í umsögn:

Í túlkun sinni á konu sem tekst á við þá flóknu ákvörðun að ganga inn í ­hlutverk ein­stæðrar móður skapar leikkonan marglaga persónu sem snertir á kómíkinni án þess að gera lítið úr kvíða aðalpersónunnar, en varpar jafnframt miskunnarlausu ljósi á hennar persónulegu erfiðleika. Lisa Loven Kongsli tekst með snilld að skapa flókna og áþreifanlega mannlega persónu sem áhorfendur eiga í gagnrýnu samtali við — ekki til að öðlast samþykki þeirra, heldur til að vekja með þeim mannúð.

Minningaspor eftir Grímu Irmudóttir var valin besta íslenska stuttmyndin. Í umsögn dómnefndar segir:

Í vinningsmyndinni metum við einkum tengslin milli landslagsins og persónanna og hvernig náttúran færir fjölskylduna nær saman í sorginni. Með kröftugu myndmáli sem og hljóðheimi býður myndin okkur að upplifa missinn ásamt móður og dætrum hennar. Við sjáum greinilega nýja og sérstæða rödd vera að mótast – með sterka sjálfsmynd, löngun til að leika sér með form og áferð og hugrekki til að taka áhættu í frásagnaraðferð varðar.
Minningaspor eftir Grímu Irmudóttur (til vinstri) var valin besta íslenska stuttmyndin á RIFF í ár.
Gríma Irmudóttir, rammi úr mynd hennar Minningaspor.

Gríma lauk meistaranámi í heimildamyndagerð við Northwestern University í Bandaríkjunum í vor. Hér má lesa viðtal við hana á vef háskólans þar sem hún ræðir um verk sín og áherslur.

The Art of Giving eftir Karin Rós Wiium var valin besta íslenska nemamyndin. Í umsögn dómnefndar segir:

Vinningsmyndin bar af því hún er meitluð að kjarnanum með nákvæmri leikstjórn. Viðkvæmt viðfangsefni er dregið fram á einfaldan en áhrifaríkan hátt. Með því að afhjúpa sárin sem ganga frá móður til dóttur verður myndin að andspyrnuverki sem stuðlar að því að rjúfa vítahring ofbeldis. Þótt sögunni sé haldið þéttri og stuttorðri felur hún í sér mörg lög og skilur eftir rými til íhugunar.

Gullna eggið, stuttmyndaverðlaun hátíðarinnar, hlaut Fadeaway eftir Brendan Prost. 7-10 eftir Ana Pio hlaut sérstaka viðurkenningu.

Besta alþjóðlega stuttmyndin var valin The Mine (L’Mina) eftir Randa Maroufi. Ramallah, Palestine, December 2018 eftir Juliette Le Monnyer hlaut sérstaka viðurkenningu.

Hinsta kveðja frá Gaza (Put Your Soul on Your Hand and Walk) eftir Sepideh Farsi hlaut verðlaun dómnefndar unga fólksins.

Smákarl gegn Pútín (Mr. Nobody Against Putin) eftir David Borenstein og Pasha Talankin var valin besta myndin í flokknum Önnur framtíð.

HEIMILDRIFF
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR