spot_img

Mikil óvissa uppi varðandi stöðu kvikmyndagreinarinnar, breytingar boðaðar á endurgreiðslukerfinu og Kvikmyndasjóði

Fjárlagafrumvarp verður lagt fram í næstu viku og þá kemur í ljós hvaða framlögum er gert ráð fyrir í Kvikmyndasjóð. Í dag föstudag kynnti Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið (MNH) ýmis hagræðingarplön sem meðal annars lúta að breytingum á endurgreiðslukerfinu og sameiningu Kvikmyndasjóðs við aðra menningarsjóði.

Gríðarlegur niðurskurður Kvikmyndasjóðs á undanförnum árum, mikil óvissa uppi

Kvikmyndasjóður hefur sætt miklum niðurskurði á undanförnum árum. Í fyrra tókst á síðustu stundu að afstýra áframhaldandi niðurskurði. Ljóst er af óformlegum samtölum sem Klapptré hefur átt að undanförnu við bæði framleiðendur og starfsfólk í kvikmyndagreininni að verulegar áhyggjur eru uppi vegna stöðu greinarinnar.

Rúnar Rúnarsson: Íslensk kvikmyndagerð verið á miklu skriði en nú eru blikur á lofti

Stjórnvöld halda spilum þétt að sér varðandi framlag sjóðsins í væntanlegu frumvarpi. Áhyggjur eru uppi innan greinarinnar um að frekari niðurskurður gæti verið í farvatninu.

Ekki hefur tekist að hefja vinnu við samkomulag til nokkurra ára í senn, líkt og gert var reglulega allt frá 1999 til 2019 og skilaði verulegum árangri fyrir íslenska kvikmyndagerð.

Þá hefur ekkert spurst til boðaðs frumvarps um menningarframlag streymisveita síðan á vormánuðum.

Fátt virðist því leggjast með kvikmyndagreininni um þessar mundir.

Hlynur um stöðuna í íslenskri kvikmyndagerð: Hef ekki hugmynd um hvernig við höldum áfram

Blikur á lofti í endurgreiðslumálum

Frumvarp er væntanlegt á haustþingi með fyrstu breytingum á endurgreiðslunum, segir í tilkynningu á vef MNH. Næstu skref eru samstarf við fjármála- og efnahagsráðuneytið um frekari endurskoðun. Endurskoðun er ætlað að skerpa á skilyrðum og umgjörð stuðningsins til að einfalda eftirlit og auka yfirsýn, segir í tilkynningunni.

Í vor kynntu stjórnvöld plön um að gera verulegar breytingar á endurgreiðslukerfinu, þar á meðal að skoða að setja þak á endurgreiðslur sem og að þrengja skilyrði um hvað teljist endurgreiðsluhæft. Þá hættir 35% endurgreiðsla um næstu áramót, nema Alþingi ákveða að framlengja gildistíma laganna. Ljóst er að í kvikmyndagreininni líst mönnum ekki alveg á blikuna.

Sameining menningarsjóða á döfinni

MHN segist stefna að „einföldun á sjóðakerfi menningar og lista með það að markmiði að stuðningur sé skilvirkari, gagnsæi aukið og að meira fé skili sér til verkefna. Stefnt að því að kerfið sé meira í takt við það sem þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við.“ Formleg vinna hefst í haust í samtali og samvinnu við hagaðila, segir ráðuneytið.

Óljóst er af orðalaginu hvað þetta þýðir, en orðrómur hefur verið á kreiki um nokkra hríð að til standi að sameina ýmsa sjóði, þar á meðal Kvikmyndasjóð. Hvað þetta þýðir fyrir umsækjendur í Kvikmyndasjóð er algerlega óljóst á þessu stigi. Enn bætist því í margskonar óvissu um starfsumhverfi greinarinnar.

Sameiginleg sjóðagátt og einfaldara umsóknarkerfi í samstarfi við Island.is

Verkefnið er samvinnuverkefni nokkurra ráðuneyta og stýrt af fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Aðkoma MNH snýr að þeim sjóðum sem heyra undir ráðuneytið, sem og aðkomu Rannís sem stofnunar MNH. Tilgangurinn er sagður vera að lækka umsýslukostnað og auka yfirsýn bæði stjórnvalda og umsækjenda.

Klapptré hefur þegar sagt frá fyrirhugaðri sameiningu Kvikmyndasafns, Hljóðbókasafns og Landsbókasafns.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR