spot_img

Ólafur Árheim: Ef þú kannt að setja saman hljóð og mynd þarf ekki langan kreditlista

Ólafur Árheim Ólafarson leikstjóri kvikmyndarinnar Eftirleikir sem frumsýnd var 31. október, segir meðal annars að nú sé hægt að gera kvikmyndir fyrir það lítinn pening að þær gætu raunverulega staðið á eigin fótum hér á landi, en til þess þurfi kvikmyndagerðarmaðurinn að vera góður í öllu.

Viðtalið birtist á vef Kvikmyndaskóla Íslands, þaðan sem Ólafur útskrifaðist af handrits- og leikstjórnarbraut. Fram kemur í upphafi að myndin hafi kostað aðeins 4 milljónir en haft er eftir gesti á PIFF hátíðinni á Ísafirði, þar sem myndin var sýnd, að hún hafi litið út fyrir að vera miklu dýrari.

Segir á vef Kvikmyndaskólans:

Eftirleikir hefur fengið mikið lof og kemur talan 150 milljónir frá því að gagnrýni nefndi að hún „looked like a million bucks“ og kvikmyndargerðarmaðurinn John Farrelly taldi sig vera að horfa á evrópska styrkjamynd þegar hún var sýnd á PIFF. Aðal ástæða þess að kostnaðurinn var ekki meiri er sú að Ólafur sá sjálfur um mesta vinnslu á henni. Myndin er langtíma verkefni Ólafs og koma margir fyrrum nemendur Kvikmyndaskólans að verkinu. Það verður að teljast ansi vel gert að honum hafi tekist að gera þessa mynd fyrir eingöngu 4 milljónir, en við ræddum við hann um það.

„Vissulega eru 4 milljónir of lítið fyrir mynd eins og þessa, og hefði hún átt að kosta svona 20-30 milljónir, sem er það sem ég vil að næsta mynd kosti, en jafnvel það er alltof lágt í huga kerfisins, og KMÍ myndi t.d. aldrei samþykkja það í núverandi kerfi þar sem 300 milljónir er talið „low budget“. En ég myndi segja að tímar eru breyttir. Einu sinni var það líka risa verkefni að skrifa bók, á miðöldum, eitt handrit kostaði heljarinnar styrk frá konunginum og margir munkar jafnvel úr mismunandi klaustrum þurftu að vinna hörðum höndum í mörg ár að tjasla saman einni bók. Og þegar prentið kom og meiri tækni og betri leshæfni gerði fólki þetta auðveldara þá þurfti fólk sem vildi nú skrifa bækur með öðruvísi og ódýrari hætti að berjast fyrir því eins og alltaf þarf að gera. Það er búið að vera hægt í nokkur ár núna að gera kvikmyndir fyrir það lítinn pening að þær gætu raunverulega staðið á eigin fótum hér á landi ef þær ná góðri aðsókn – og þannig að allir fái borgað! – sem kvikmyndir eins og „Síðasta veiðiferðin“ hafa sýnt. En til þess þarf kvikmyndagerðarmaðurinn að vera nógu góður í öllu, minni sérhæfing og meiri alhliða bara kvikmyndagerð. Ef kvikmyndagerðarmaðurinn kann sjálfur að setja saman hljóð og mynd á háum standard þá þurfum við ekkert langan kreditlista.“

Hvaðan kom hugmyndin að sögunni?

Eins og skáldsögur fæðast oft upp úr öðrum sögum þá las ég um mál, alvöru morðmál sem mér fannst fyndið, í rauninni, af því ásetningurinn á bak við það var svo grillaður, og expandaði það til að skoða hversu langt afleiðingarnar af svona máli gætu farið, niður kynslóðir, yfir í hefnd, og hvað gerist síðan þegar hefðbundin hefnd er ekki nóg? Fyrir mér er þetta grínmynd, sko, af því að þetta er svo absúrd allt saman, en fólk má líka taka þessu sem alvarlegri hryllingsmynd af því að línan á milli tragedíu og kómedíu er miklu þynnri en fólk kannski gerir sér grein fyrir, og ég er að dansa á þessari línu. Mætti líka segja að þetta séu tvær hliðar á sama peningnum; hvort eitthvað sé tragedía eða kómedía fer bara eftir framsetningunni, eða öllu heldur því hvernig áhorfandinn ákveður að meðtaka dæmið.

Hvernig gekk eftirvinnslan?

Já ég opinberaði því víst á forsýningunni að ég er búinn að vera edrú síðan 1. janúar eftir mörg ár af daglegri drykkju og var kominn með alvarlegan fíknivanda í þeim efnum. Var með 2 tíma klipp af einhverri dramamynd í fyrra, en þetta gerðist allt mjög hratt í ár, klippti hana upp á nýtt, niður í 80 mínútna thriller, hljóðvann upp á nýtt o.s.frv, og gerði bara loks allt sem þurfti að gera til að koma þessari mynd út. Það er engin tilviljun og mig langar að vera opinskár með það því að hætta drykkjunni er þáttur sem spilaði feikilega mikið inn í það að sigla þessu í höfn.

Átt þú einhver ráð til verðandi kvikmyndafólks?

Aldrei vera boring, gerðu okkur þann greiða, en ekki með því að fórna meiningu; aldrei vera þýðingarlaus heldur. En passaðu þig að reyna ekki að falsa þýðingu úr engu, það er tilgerð. Leyfðu henni að spretta af sjálfu sér, einhvern veginn, og sama með að vera skemmtilegur eða grípandi, ekki reyna það, það verður að gerast bara. Þetta er eins og að sofna, þú nærð því ekki fyrr en þú hættir að reyna. Já, það er flókið að vera listamaður…

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR